Eigendur fjármagns sem verið hefur í gríska hagkerfinu virðast nú reyna allt sem þeir geta til að koma fjármagningu annað. Hvert skiptir ekki öllu máli, bara að það sé ekki í Grikklandi. Á síðustu sex mánuðum hefur fjárfesting, innlán og annað slíkt í eigu fjárfesta dregist saman um 25 prósent af landsframleiðslu Grikklands. Frá febrúarmánuði 2015 hefur um 51 milljarður dala, rúmleg 6.700 milljarðar íslenskra króna, af fjármagni í eigu einkaaðila flúið gríska hagkerfið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði frá greiningaraðilum þýska stórbankans Deutsche Bank sem sent var á valda viðskiptavini hans í gær. Business Insider greinir frá.
Það eru ekki bara útlendingar sem eru að flýja með peninganna sína frá Grikklandi. Innlendir fjárfestar eru að gera það líka, tæpur helmingur þess fjármagns sem hefur farið út úr hagkerfinu var í eigu grískra fjárfesta.
Til að setja þann mikla flótta fjármagns sem átt hefur sér stað í Grikklandi síðasta hálfa árið í samhengi er hægt að bera stöðuna þar saman við önnur lönd Evrópu sem hafa upplifað miklar fjárhagslegar þrengingar. Samdráttur fjárfestinga, innlána og annarra slíkra, eigna verið rétt yfir sex prósent af landsframleiðslu á Italíu, undir fimm prósent á Spáni og hefur aukist um tæp fimm prósent í Portúgal.
Vandræði með að mæta gjalddögum
Rótttæki vinstriflokkurinn Syriza vann stórsigur í grísku þingkosningunum í janúar síðastliðnum, meðal annars á grundvelli loforða um að hætta að starfa eftir ríkisfjármálaáætlunum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið.
Það hefur hins vegar gengið illa hjá Grikkjum að ná sínu fram í viðræðum við þessa aðila og samningaviðræður um aukin neyðarlán, sem eru ríkinu nauðsynleg, hafa að mestu farið fram á forsendum lánveitendanna, ekki Grikkja. Nokkrum sinnum hefur stefnt í að Grikkir myndu ekki ná að mæta stórum gjalddögum á lánum sem þegar var búið að veita ríkinu, en því hefur alltaf verið afstýrt á síðustu stundu.
Undir lok apríl lofaði forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, þjóðaratkvæðagreiðslu um skuldasamkomulag við Evrópusambandið ef það yrði ekki í samræmi við kosningarloforð Syriza.
Grikkir hafa mætt tveimur stórum gjalddögum í þessum mánuði og komu mörgum markaðsaðilum á óvart með því að greiða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 770 milljónir evra síðastliðinn þriðjudag. Margir þeirra höfðu búist við að slík upphæð væri einfaldlega ekki til í gríska ríkiskassanum. Fleiri gjalddagar eru hins vegar framundan.
Stjórnendur og almenningur vilja Grikki út úr evrunni
Vegferð grískra stjórnvalda um skuldaeftirgjöf og nýja samninga um lánakjör er ekki vinsæl hjá almenningi í stærstu löndum evrusvæðisins. Sérstaklega ekki í því stærsta, Þýskalandi.
Fyrr í þessum mánuði gerði þýska viðskiptablaðið Handelblatt könnun á meðal stjórnenda helstu fyrirtækja í landinu um hvort Grikkir ættu að yfirgefa evruna.
Í henni kom í ljos að 44 prósent þeirra 673 stjórnenda þýskra fyrirtækja sem spurðir voru um málið vildu að Grikkir hefðu frumkvæði að því að hætta með evru sem gjaldmiðil.
Átta af hverjum tíu þýskum stjórnendum telja að ef Grikkir myndu yfirgefa evruna þá myndi það ekki hafa neikvæð áhrif á önnur ríki sem eru hluti af myntsamstarfinu og minna en fimmtungur aðspurðra hafði áhyggjur af efnahagslegri keðjuverkun þess.
Það eru ekki bara fyrirtækin í Þýskalandi sem hafa þá skoðun að Grikkir ættu að yfirgefa myntsamstarfið. Í könnun sem framkvæmd var í mars kom í ljós að rúmur helmingur almennings er á þeirri skoðun líka.
Í Grikklandi er staðan hins vegar allt önnur. Þar vill meirihluti landsmanna vera áfram hluti af evrusvæðinu.