Diego Armando Maradona, einn þekktasti knattspyrnumaður sögunnar, er sagður ætla að bjóða sig fram til embættis forseta alþjóðaknattspyrnusambandsins FIFA í forsetakosningum sem framundan eru. Victor Hugo Morales, blaðamaður og rithöfundur frá Úrúgvæ, segir að Maradona hafi sagt sér þetta þegar hann hringdi í hann síðastliðið sunnudagskvöld. Morales segir að Maradona hafi gefið sér leyfi til að segja frá áformunum opinberlega. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Maradona, sem er 54 ára, er lifandi goðsögn í knattspyrnuheiminum. Hann leiddi Argentínu til sigurs í heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu i Mexíkó árið 1986 þar sem hann skoraði meðal annars tvö mörk í átta liða úrslitum gegn Englandi. Annað markið skoraði hann með „hendi guðs“ og hitt eftir einhvern ótrúlegasta einleik sem sést hefur á stórmóti í knattspyrnu. Morales lýsti þeim leik og er vel þekktur í Suður- og Mið-Ameriku fyrir ótrúlega ástríðufulla lýsingu sína á síðari marki Maradona í þeim leik. Hægt er að sjá markið og heyra lýsingu Morales hér að neðan. Morales og Maradona stýrðu auk þess saman sjónvarpsþætti fyrir sjónvarpsstöð í Venesúela í fyrrasumar, á meðan að heimsmeistarakeppnin í Brasilíu stóð yfir.
https://www.youtube.com/watch?v=1wVho3I0NtU
Blatter hættir óvænt
Kosið verður um nýjan forseta FIFA í lok þessa árs eða byrjun þess næsta. Þetta varð ljóst í byrjun júnímánaðar þegar Sepp Blatter, sem gegnt hefur embættinu frá árinu 1998, tilkynnti að hann ætlaði að hætta, fjórum dögum eftir að hann var endurkjörinn í umdeildum kosningum og í skugga spillingarmála. Á blaðamannafundi vegna þessa sagðist Blatter ætla að boða til nýs aðalfundar þar sem þyrfti að kjósa nýjan formann, en það yrði ekki gert fyrr en á tímabilinu milli desember á þessu ári og mars á næsta ári.
Í vikunni fyrir kosningarnar opinberaðist hvert spillingarmálið á fætur öðru tengt FIFA og ásýnd sambandsins beið mikinn skaða.