Earl Simmons, betur þekktur sem rapparinn umdeildi DMX, var handtekinn af laganna vörðum, er hann var við það að stíga á svið í Radio City tónlistarhöllinni á föstudaginn, en rapparinn skuldar 400 þúsund bandaríkjadali, eða röskar 53 milljónir íslenskra króna, í vangoldnar meðlagsgreiðslur. Fréttamiðillinn TIME greinir frá málinu.
DMX var handtekinn og færður á lögreglustöð vegna meðlagsskuldarinnar, en þá hafði sömuleiðis verið gefin út handtökuskipun á rapparann fyrir rof á skilorði og vegna ásakanna um rán í Newark í New Jersey.
Rapparinn var við það að stíga á svið á föstudaginn þar sem hann hugðist koma fram á tónleikunum Master of Ceremony í Radio City. Fyrirtækið sem sér um kynningarmál fyrir DMX hafði ekki svarað fyrirspurnum frá The Associated Press þegar TIME birti umfjöllun sína um málið.