Ítölsku tískukóngarnir Domenico Dolce og Stefano Gabbana hafa verið sýknaðir í máli ítalska ríkisins gegn þeim vegna ásakana um skattsvik. Í apríl voru þeir dæmdir í skilorðsbundið 20 mánaða fangelsi í undirrétti vegna málsins. Hæstiréttur Ítalíu hefur nú snúið þeirri niðurstöðu og sýkna þá félaga. Þeir eru að mörgum taldir vera áhrifamestu fatahönnuðir Ítalíu síðustu 20 árin og hafa auðgast verulega á verslunarrekstri og fatahönnun.
Þeir voru sakaðir um að hafa ekki staðið skil á 343,3 milljónum evra, um 53 milljörðum króna. Féð var lagt inn í félag í Lúxemborg, Gado að nafni, og vildu ítölsk skattayfirvöld meina að með þessu væru Dolce og Gabbana að svíkjast undan því að greiða skatta af þessari fjárhæð á Ítalíu.
Þeir mótmæltu dómsniðurstöðunni í apríl með táknrænum hætti, með því loka verslunum sínum í Mílanó borg. Líklega munu þær standa galopnar núna, í ljósi þess að þeir hafa verið hreinsaðir af ásökunum yfirvalda.