Dómnefnd telur Karl Axelsson hæstaréttarlögmann hæfari til setu í Hæstarétti en Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldi Einarsdóttur, þó menntun þeirra og reynsla af dómarastörfum sé mun meiri.
Reynsla Karls í stjórnsýslu- og lögmannsstörfum var þó meiri og vó þyngra í mati dómnefndar. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Kastljós hefur undir höndum umsögn dómnefndar sem dagsett er í gær, að því er fram kemur í umfjölluninni. Auglýst var eftir stöðu hæstaréttardómara í júlí síðastliðnum.
Þrír umsækjendur voru um stöðuna og þóttu öll hæf til að gegna embætti dómara. Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari og settur dómari við Hæstarétt, Davíð Þór Björgvinsson, doktor í lögum og dómari við Mannréttindadómstól Evrópu auk Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns. Sérstök dómnefnd hefur svo það hlutverk að fara yfir umsóknirnar og gera tillögu til ráðherra um skipan dómara.
Formaður nefndarinnar er Gunnlaugur Claessen, fyrrverandi hæstaréttardómari. Tveir nefndarmanna eru tilnefndir af Hæstarétti, þriðji nefndarmaðurinn af dómstólaráði og sá fjórði af Lögmannafélagi Íslands. Fimmti nefndarmaðurinn skal svo kosinn af Alþingi.