Ákveðið hefur verið að fresta frekari umræðu um útlendingamálafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra til haustþings, en dómsmálaráðherrann segir við RÚV að hann hafi ákveðið að fresta frumvarpinu til þess að liðka fyrir samningum um þinglok.
Eins og Kjarninn sagði frá í upphafi viku lögðu þrír stjórnarandstöðuflokkar, Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins, fram ítarlegar breytingartillögur við frumvarp ráðherra eftir að ráðherra óskaði eftir því að fá efnislegar athugasemdir sem liðkað gætu fyrir samningum um frumvarpið, en samkvæmt frétt RÚV kom ráðherrann með tillögur á móti sem þingflokkarnir þrír sættu sig ekki við.
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar sagði undir liðnum störf þingsins á Alþingi fyrir hádegi að ríkisstjórnin hefði slegið á útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðuflokkanna þriggja í málinu.
Tillögur stjórnarandstöðuflokkanna voru lagðar fram í kjölfar þess að Jón leitaði eftir samtali við andstöðuflokka á þingi um að koma frumvarpinu í gegn og ná þannig samkomulagi um þinglok, en útlendingafrumvarp ráðherrans hefur verið einn helsti þröskuldurinn fyrir því að samningar náist um þinglokin, sem hafa verið áætluð samkvæmt starfsáætlun þingsins á morgun.
Frumvarp Jóns er einnig umdeilt innan þingliðs ríkisstjórnarflokkanna, en þingflokkur Vinstri grænna afgreiddi það með fyrirvara og eins og fram kom í fréttaskýringu Kjarnans um tillögur stjórnarandstöðunnar á dögunum nefndu viðmælendur að það hefði meðal annars verið þrýstingur á Jón innan þingflokks Sjálfstæðisflokks um að breyta frumvarpinu þannig að það næði í gegn.
Á mánudag lágu fyrir þær tillögur sem Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins sögðu að Jón þyrfti að taka tillit til ef það ætti að verða hægt að koma frumvarpinu í gegn og ljúka þingstörfum. Píratar stóðu ekki að þeim tillögum, sökum þess að þeir voru einfaldlega á móti þeirri aðferðafræði að semja við Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra um niðurstöðu málsins.
Breytingatillögur stjórnarandstöðuflokkanna voru í sex liðum og vildu flokkarnir einnig fá tillögur sínar og Pírata, sem vörðuðu þann hóp flóttafólks sem hefur ílengst hér vegna COVID-19 takmarkana, felldar inn í frumvarpið.
Þær tillögur, sem settar voru fram í þingsályktunartillögu í upphafi mánaðarins, fólu í sér að sá dráttur sem orðið hefur á brottflutningi fólksins, sem kom til vegna heimsfaraldurs, verði ekki sagður á ábyrgð umsækjenda sjálfra. Þannig njóti þeir sömu réttinda og aðrir í sömu stöðu, þannig að þeir flóttamenn sem hafa dvalið hér í 12 og 18 mánuði eftir að niðurstaða er komin í mál þeirra fái hér annars vegar efnismeðferð og hins vegar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.