„Ríkisstjórn sem talar stöðugt um skilvirkni og mun minna um mildi og mannúð ætlar nú að setja málaflokkinn í algjört uppnám, enda fáir lögmenn sem hafa viðlíka þekkingu og þeir lögfræðingar sem alfarið hafa helgað sig málaflokknum síðustu ár.“
„Fyrir liggur að málsmeðferðartími hefur styst eftir að Rauði krossinn tók við verkefninu, en það hefur einmitt verið aðalmarkmið stjórnvalda í málaflokknum,“ sagði Helga Vala. „Hjá Rauða krossinum hefur myndast mikil þekking og góð yfirsýn sem hefur gagnast íslenskum stjórnvöldum.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði það rétt að ákveðið hefði verið að endurnýja ekki samninginn við Rauða krossinn. Samningurinn taki til bæði félagsþjónustu og talsmannaþjónustu og „þær breytingar urðu um áramót að félagsþjónustan færist yfir í annað ráðuneyti“.
Við tímamót þar sem hlutverk ráðuneytis tekur miklum breytingum væri ástæða til að endurskoða það hvernig staðið verður að málaflokknum. „Það er auðvitað ranglega sagt hér að eitthvert uppnám sé í þessum málaflokki. Við munum væntanlega tilkynna það í þessari viku, eða í næstu viku í síðasta lagi, hvernig staðið verður að þessum málum í framtíðinni. Við munum tryggja að sú lögbundna þjónusta sem ráðuneytið á að veita verði til staðar og það verði ekkert rof á henni gagnvart þeim sem hingað koma.“ Hann sagði í viðtali nýverið að ekki væri víst að þjónustan yrði boðin út heldur gæti farið svo að verkefnunum yrði deilt til sjálfstæðra lögmanna eða lögmannsstofa.
Jón sagði það rétt að málmeðferðartíminn hefði styst en að það væri fyrst og fremst út af breyttum vinnureglum ráðuneytisins við vinnslu umsókna um ríkisborgararétt á Íslandi. „Þess vegna meðal annars hefur málsmeðferðartími styst.“