Bandaríski auðkýfingurinn og nú forsetaframbjóðandinn Donald Trump er vinsælasta forsetaefni meðal Repúblikana, samkvæmt skoðanakönnunum bandarískra fjölmiðla síðustu daga. Óvægin, umdeild og yfirlýsingarglöð kosningabarátta Trumps virðist falla vel í kramið hjá mörgum Bandaríkjamönnum. Í gær birti USA Today könnun sem sýnir 17 prósent stuðning við Trump meðal forsetaefna Repúblikanaflokksins, um þremur prósentustigum meira en hjá næsta frambjóðenda, Jeb Bush.
Um klukkustund áður en niðurstöður könnunar USA Today lágu fyrir í gær, þá birtist samsett mynd á Twitter-síðu Trumps þar sem andlit hans, Hvíta húsið, peningaseðlar og hermenn hafa verið skeyttir ofan á bandaríska fánann. Ef rýnt er í myndina má sjá kennimerki SS-sveita nasista á handlegg hermannanna. Svo virðist sem myndin sé af hermönnum nasista.
Skjáskot The Guardian af tísti Donald Trump.
The Guardian greinir frá í dag en myndinni var fljótlega eytt af Twitter-síðu Trumps og skuldinni skellt á starfsnema á kosningaskrifstofunni. Blaðamaður The Guardian metur það líklegast að starfsfólk Trumps hafi sótt ókeypis mynd úr myndabanka og ekki séð að hún er af leikurum í gervi nasista.
Ræður Trump hafa oft ratað í fjölmiðla síðan hann tilkynnti um framboð sitt til forsetaefnis Repúblikana um miðjan síðasta mánuð. Stefna hans þykir óvægin og harðneskjufull. Vinsældir í skoðanakönnunum koma í kjölfar afar umdeildara ummæla hans um innflytjendur í Bandaríkjunum. „Þegar Mexíkó sendir fólkið sitt, þá er það ekki besta fólkið þeirra. Þau senda fólk sem glíma við mörg vandamál og þau taka þessi vandamál með sér. Þau taka með sér fíkniefni og glæpi. Þetta eru nauðgarar,“ sagði Trump í einni umdeildustu ræðu sinni þar sem hann fjallaði um innflytjendur í Bandaríkjunum frá Mexíkó.
Mörgum þykir afstaða Trump afar fordómafull og fáfróð. Vegna ummæla sinna hefur hann misst sjónvarpssamning og fjölmörg fyrirtæki hafa rift samningum við hann. Engu að síður hafa vinsældirnar haldið áfram að aukast í skoðanakönnunum. Það bendir til að hluti bandarískra kjósenda tekur undir afstöðu Trumps í innflytjendamálum, sem hafa verið fyrirferðamest í kosningabaráttu Trumps til þessa.