Breskir fíkniefnasalar vilja ekki sjá nýjustu iPhone- eða Android farsímana, þess í stað keppast þeir við að komast yfir gamla Nokia 8210 farsíma þar sem erfiðara er fyrir lögreglu að rekja þá. Fréttasíðan Vice greinir frá málinu.
Flestir ef ekki allir snjallsímar eru í raun nokkuð fullkomið GPS staðsetningartæki, sem nýtist eigendum þeirra til að rata á veitingastaðinn sem var mælt með, eða til að finna glataða síma. Samkvæmt umfjöllun Vice getur lögregla sömuleiðis notað símana til að rekja ferðir glæpamanna. Þá er fullyrt að lögregla eigi mun auðveldara með að hlera snjallsíma en gömlu góðu farsímana.
Vice fullyrðir að Nokia 8210 sé lang eftirsóttasti farsíminn á meðal fíkniefnasala. Síminn kom á markað árið 1999 og er minnsti og léttasti síminn sem Nokia hefur framleitt. Hann er hvorki með Bluetooth eða Wifi, en hann hefur infra-rauðan búnað sem gerir dópsölum auðvelt um vik að færa upplýsingar fljótt á milli síma, þegar þeir neyðast til að skipta um símtæki. Þá er síminn með öfluga rafhlöðu sem endist lengi, sem gerir hann ekki hvað síst eftirsóknarverðan fyrir sölumenn á götunni.
Þá hefur síminn notið töluverðra vinsæla í gegnum tíðina í fangelsum þar sem hann þykir sérlega hentugur til að geyma innvortis vegna smæðar sinnar. Mikil eftirspurn eftir símanum hefur gert hann að verðmætum gjaldmiðli, sem fíkniefnaneytendur hafa notað óspart í viðskiptum sínum við fíkniefnasala.
Hér að neðan má sjá sjónvarpsauglýsinguna frá Nokia þegar síminn kom á markað árið 1999.