Tindholmur, færeyskt dótturfélag Samherja, hefur greitt 345 milljónir króna vegna vangoldinna skatta í ríkissjóð Færeyja. Skattskil félagsins hafa sömuleiðis verið kærð til lögreglu í Færeyjum. Frá þessu er grein í fréttatíma færeyska ríkissjónvarpsins í kvöld.
Í fréttatímanum staðfesti Jógvan Páll Lassen, lögmaður sem kom að málinu, að greiðslan, alls 17 milljónir danskra króna, hafi verið greidd.
Málið kom upp í mars síðastliðnum þegar fyrri hluti heimildarmyndar um umsvif Samherja í Færeyjum var sýnd er í færeyska sjónvarpinu. Hún var unnin í samstarfi við Kveik og Wikileaks.
Þar kom fram að Íslendingur úr áhöfn togara í eigu Samherja, sem gerður var út í Namibíu, fékk laun sín greidd frá færeyska félaginu Tindholmur, sem Samherji stofnaði þar í landi árið 2011. Gögn sýndu að hann hafi auk þess verið ranglega skráður í áhöfn færeysks flutningaskips í eigu Samherja, en útgerðum býðst 100 prósent endurgreiðsla á skattgreiðslum áhafna slíkra skipa.
Þannig er talið að málum hafi verið háttað með fleiri sjómenn sem unnu fyrir Samherja í Namibíu. Fyrir vikið greiddu sjómennirnir ekki skatta í Namibíu og Samherji þurfti því ekki að bæta þeim upp tekjutap vegna slíkra skattgreiðslna.
Björn á Heygum, fyrrverandi þingmaður í Færeyjum sem var stjórnarformaður Tindholms þar til félaginu var slitið árið 2020 og sem hefur setið í stjórnum fjölda félaga í eigu Samherja síðustu þrjá áratugi, sagði í þættinum að hann hefði verið blekktur. Hann hefði ekki haft neina vitneskju um þetta fyrirkomulag við greiðslu launa.
Samherji hafnaði fréttum um skattrannsókn
Í kjölfar þess að greint var frá málinu í íslenskum fjölmiðlum, meðal annars RÚV, birti Samherji yfirlýsingu á vef sínum þar sem fyrirtækið sagðist hafa fengið staðfestingu á því að engin skattrannsókn væri hafin á hendur Samherja í Færeyjum.
Þar sagði að fréttir RÚV um slíkt væru rangar og að þær byggðu á rangtúlkun og útúrsnúningi á viðtali við yfirmann færeyska skattsins. Samherji fór fram á að fréttir RÚV yrði leiðréttar.
Nú hefur fengist staðfest að skattamál Tindholms hafi verið kærð til lögreglu og verða rannsökuð þar. Auk þess liggur fyrir, samkvæmt frétt færeyska sjónvarpsins, að Samherji hafi endurgreitt skatta sem fyrirtækið hafði komið sér undan því að greiða með áður nefndum hætti. Þ.e. með því að skrá sjómenn sem farmenn til að fá fulla endurgreiðslu á sköttum.