Ekki eru væntingar um að hægt verði að leysa flöskuhálsa í alþjóðaflutningum fyrr en á seinni hluta ársins. Áhrif þeirra á innfluttar vörur í Evrópu munu þó líklega minnka á næstunni, en á Íslandi eru þau takmörkuð þessa stundina.
Forstjóri Mærsk ekki bjartsýnn
Søren Skou forstjóri danska gámafyrirtækisins Mærsk, sagði í viðtali við CNN í síðustu viku að yfirstandandi framboðstruflanir á alþjóðlegum vörumörkuðum myndu ekki leysast á næstunni. „Þessa stundina virðist staðan ekki vera að batna að einhverju marki,“ sagði Skou. „Ég vildi að ég gæti boðað betri tíðindi, en akkúrat núna er ekkert í tölunum sem gefur það til kynna,“ bætti hann við.
Samkvæmt forstjóranum geta skipaflutningar varla annað ört vaxandi eftirspurn á heimsvísu, þar sem erfitt hefur reynst að manna stöður. Hann segir mönnunarskortinn hafa skapað nokkur vandamál, sérstaklega í kringum hafnir á vesturströnd Bandaríkjanna.
Betri horfur í Evrópu
Samkvæmt Seðlabanka Evrópusambandsins eru þessi vandamál þó ekki jafnmikil í Evrópu, þar sem eftirspurn eftir innflutningsvörum hefur aukist mun meira í Bandaríkjunum á síðustu mánuðum. Sömuleiðis má gæta meiri spennu á vinnumarkaði Vestanhafs, þar sem skortur hefur myndast á starfsfólki í ýmis störf, á meðan viðspyrnan hefur verið hægari í Evrópu.
Seðlabankinn birtir einnig hagvísi sem birtir á afhendingartíma hjá birgjum á iðnaðarvörum, en hann ætti að gefa til kynna hvort búast mætti við meiri eða minni framleiðsluhnökrum í framtíðinni. Á síðustu vikum hefur hagvísirinn lækkað töluvert, en samkvæmt bankanum ætti það að vera vísbending um að minni hnökra sé að vænta í náinni framtíð.
Markaðsaðilar eru þó ekki bjartsýnir um að flöskuhálsarnir í framleiðslu muni hverfa, samkvæmt könnun Seðlabanka Evrópu. Þar bjuggust flestir þeirra sem tóku afstöðu við því að truflanirnar myndu vara í hálft ár í viðbót, hið minnsta. Hins vegar voru þeir mjög fáir sem töldu að hnökrarnir myndu vara í ár í viðbót.
Takmörkuð áhrif á Íslandi
Í grein sinni í síðasta tölublaði Vísbendingar sagði Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við HÍ, að verðhækkanir á erlendum vörum ekki hafa verið stóran áhrifavald í innlendri verðbólgu, meðal annars vegna þess að gengisstyrking íslensku krónunnar hafi unnið gegn þeim.
Samkvæmt nýlegri umfjöllun Financial Times hefur húsgagnaverð hækkað sérstaklega hratt vegna alþjóðlegra framboðstruflana, þar sem flutningakostnaður þeirra er að jafnaði mikill. Í Bretlandi nam verðbólgan í vöruflokknum 12,5 prósentum í desember í fyrra, en í Bandaríkjunum nam hún 9,3 prósentum í síðasta mánuði.
Þessar hækkanir eru mun minni hérlendis. Samkvæmt vísitölu neysluverðs, sem Hagstofan mælir mánaðarlega, nam verðbólgan í húsgögnum og heimilisbúnaði tveimur prósentum í síðasta mánuði. Sömu sögu er að segja um raftæki, sem eru að mestu leyti innflutt, en þau voru einungis 0,1 prósent dýrari en í janúar í fyrra. Verðbólguþróunina fyrir báða vöruflokkana má sjá á mynd hér að ofan, en þar sést að verulega hefur dregið úr verðþrýstingnum á síðustu mánuðum.