Líklega hafa margir Danir sperrt eyrun þegar þeir heyrðu fréttaþul danska útvarpsins, DR, tilkynna þessi tíðindi í yfirliti hádegisfréttanna fyrir nokkrum dögum. Þessi upphafsorð reyndust líka villandi þegar betur var að gáð. Drottningarmaðurinn er sem sé ekki genginn í bindindi heldur búinn að selja víngerðarfyrirtæki sitt í Frakklandi, þar sem er reyndar líka framleitt hvítvín.
Henrik drottningarmaður var mikið til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum í kringum 75 ára afmæli Margrétar Þórhildar. Ástæðan var sú að hann var ekki viðstaddur neinar samkomur eða fréttamannafundi vegna tímamótanna ef frá eru talin hátíðahöld í Árósum sem fram fóru viku fyrir afmælið. Á fréttamannafundi sem drottningin hélt nokkrum dögum fyrir afmælið greindi hún frá því að eiginmaður sinn lægi í inflúensu. Hann myndi ekki vera með í öllu afmælistilstandinu en hefði þó valið réttina sem snæddir yrðu í stóru afmælisveislunum tveim, sömuleiðis drykkina.
Við þessu var ekkert að gera, allir geta jú fengið inflúensu og hún spyr hvorki um stétt né stöðu og enn síður um afmælisdaga.
Margrét Þórhildur Danadrottning, ásamt fjölskyldu sinni á 75 ára afmælisdegi drottningar, og Henrik hvergi sjáanlegur. Mynd: EPA
Undrafljótur að ná sér
Hálfum sólarhring eftir að síðari afmælisveislu drottningar (fjölskylduveislunni) lauk var Henrik hins vegar kominn á kreik og alla leið til Hamborgar. Margir Danir sögðust hafa séð hann þar og karlinn hefði virst hinn sprækasti. Sama dag og þessi tíðindi bárust fréttist svo af honum í Feneyjum og virtist að sögn ekki laslegur þar sem hann sprangaði um Markúsartorgið við vængjaslátt dúfnaskarans sem þar gerir sig heimakominn.
Fréttirnar af hinum undraskjóta bata urðu til þess að ýmsir fóru að gera því skóna að drottningarmaðurinn hefði hreint ekkert verið lasinn, hann hefði einfaldlega ákveðið að skrópa í afmælinu. Öðrum fannst það af og frá að slíkt ætti sér nokkra stoð, hann hefði alltaf staðið þétt við hlið Margrétar Þórhildar og ekki komið til hugar að hlaupast undan merkjum á stórafmælinu. Engin niðurstaða fékkst þó úr þessum vangaveltum og eins og búast mátti við heyrðist ekkert frá höllinni.
Hættur í víninu
Varla var búið að vaska upp leirtauið og hnífapörin eftir afmælisveislur drottningar þegar Henrik bóndi hennar var aftur kominn á forsíður dönsku miðlanna. Að þessu sinni voru það hvorki matarboð né ferð á Markúsartorgið sem um var rætt heldur það að drottningarmaðurinn kunngjörði að hann væri ekki lengur vínbóndi í Frakklandi.
Hann hefði selt vínræktina sem hefði verið sitt stóra hugðarefni í 40 ár. Hann væri kominn á níræðisaldur (fæddur 1934) og þar sem ljóst væri að synir þeirra Margrétar kærðu sig ekki um að taka við búrekstrinum væri þetta rétt ákvörðun. Gott fólk tæki við þessum búskap og vínviðurinn væri í góðum höndum.
Chateau de Cayx
Vínræktin, sem drottningarmaðurinn kallar svo, fer fram á búgarðinum Chateau de Cayx í Cahors í Suður-Frakklandi. Þau Margrét Þórhildur og Henrik keyptu búgarðinn, aðalbyggingin er lítil höll, fyrir um það bil 40 árum. Þá var þar framleitt vín sem þótti í slöku meðallagi og Danir, sem voru lengi að sætta sig við þennan franska sendiráðsstarfsmann sem ríkisarfinn hafði kynnst í matarboði, gerðu óspart grín að rauðvíninu frá Chateau de Cayx.
Henrik drottningarmaður við sveitahöllina í Chateau de Cayx, með tveimur barnabörnum sínum. Mynd: EPA
Sendiráðsstarfsmaðurinn fyrrverandi kærði sig kollóttan um þetta tal og hægt og rólega steig vínið frá búgarði Henriks (drottningin kom aldrei nálægt búskapnum) á einkunnakvarða víndómara og nú þykir vínið frá Chateau de Cayx í hópi þess besta frá Cahors héraðinu. „Í víngerð er þolinmæði dyggð,“ sagði Henrik á fréttamannafundi fyrir nokkru í tilefni útkomu bókar um búgarðinn og starfsemina þar og bætti við að 40 ár væru ekki langur tími í því samhengi. Hinir nýju eigendur hafa leyfi til að nota merkingarnar á flöskunum áfram óbreyttar og Henrik kvaðst mjög ánægður með það, og stoltur.
Eiga sjálfa höllina áfram
Þótt vínframleiðslan sé ekki lengur í höndum Henriks hafa þau hjónin ekki sagt skilið við Chateu de Cayx. Þau eiga höllina áfram og hyggjast nota hana sem sumardvalarstað fyrir fjölskylduna eins og þau hafa lengi gert. Höllin sem var í mikilli niðurníðslu þegar þau hjónin keyptu búgarðinn hefur verið gerð upp og er í „toppstandi“ eins og Henrik orðað það þegar hann sagði frá ákvörðuninni um aðrir tækju við vínræktinni.
Hann sagði að nýju eigendurnir hefðu spurt sig hvort hann myndi verða þeim innan handar og gefa góð ráð. hann hefði svarað því til að það skyldi hann glaður gera. Gefa góð ráð, án þess að senda reikning fyrir ráðgjöfinni.