Talið er að fjórfalt fleiri hafi dáið á ferð sinni yfir Miðjarðarhaf á leið til Evrópu það sem af er þessu ári samanborið við allt árið 2013. Óttast er að margir þeirra tvö hundruð þúsund flóttamanna sem hafast nú við í Norður-Líbíu muni grípa til sömu örþrifaráða og reyna að komast yfir hafið, þá helst til Ítalíu. Þar af er talið að sjö þúsund manns leiti nú ljósum logum að neyðarútgangi frá Líbíu vegna átakanna þar, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðasamtökum um fólksflutninga (IOM).
Í október í fyrra drukknuðu fleiri en 360 skammt frá eynni Lampedusa við Ítalíu. Í kjölfarið kynntu ítölsk stjórnvöld nýja aðgerðaáætlun fyrir strandgæsluna, Mare Nostrum, sem Evrópusambandið styrkir fjárhagslega.
Síðan þá hefur ítalska strandgæslan lagt kapp á að komið verði til móts við flóttafólk áður en slys verða og það flutt um borð í örugg skip. Dæmi eru um að strandgæslan hafi tekið við fimm þúsund manns með þessum hætti á innan við viku. Það sem af er þessu ári hefur strandgæslan tekið á móti rúmlega sextíu þúsund sjóferðalöngum, sem margir voru um borð í skipum um það bil að sökkva. Sumir hafa reynt að komast yfir á ofhlöðnum gúmmíbátum.
Þrátt fyrir að ítalska strandgæslan hafi nú þegar komið í veg fyrir mörg slys telur IOM að strandgæslan hafi aðeins tekið á móti helmingi þeirra sem hafi lagt leið sína yfir til Ítalíu sjóleiðis. Stjórnvöld á Möltu óttast að einhver þeirra hundruða líka sem eru nú í sjónum séu smituð ebóluveirunni. Þetta hefur torveldað leitar- og björgunarstarfi. Tryggja þarf að starfsmenn fái viðeigandi þjálfun og búnað til að draga úr líkum á að þeir smitist.
Glæpamenn hagnast
Sjöfalt fleiri reyndu að komast ólöglega yfir til Ítalíu fyrsta ársfjórðung þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra samkvæmt skýrslu landamærastofnunar Evrópusambandsins, Frontex. Þetta megi að stórum hluta rekja til þess að glæpahringir hagnist á örbirgð og ótta flóttafólks. Þessir hópar skipuleggi ferðir yfir Miðjarðarhaf gegn greiðslu. Því fleiri sem komist um borð í hvern bát, því meira fé fái eigendurnir. Farþegarnir séu flestir grunlausir um áhættuna sem fylgi þessum sjóferðum.
Samkvæmt Frontex eru flestir flóttamennirnir auk þess upp til hópa skilríkis- og landlausir og hafi þar af leiðandi fáa valkosti. Fjöldi Sýrlendinga hafi til að mynda flúið gagngert til Líbíu til að nýta sér sjóleiðina til Evrópu. Talið er að sumir smyglaranna sökkvi bátunum viljandi til að fela slóð sína.
Forza Italia, stjórnmálaflokkur Silvios Berlusconis, er meðal þeirra sem hefur gagnrýnt ríkisstjórn Ítalíu fyrir að halda úti Mare Nostrum áætluninni. Verkefnið hafi þveröfug áhrif því hún laði að sér flóttafólk þegar strandgæslan sjái um að koma því yfir til Sikileyjar heilu á höldnu. Hún hafi því aðeins aukakostnað í för með sér fyrir Ítalíu, sem borgi um tvo milljarða króna á mánuði til að reka Mare Nostrum.
Algjört stjórnleysi í Líbíu
Flóttamenn frá Egyptalandi, Sýrlandi, Sómalíu, Erítreu, Súdan og hinum ýmsu Vestur- og Mið-Afríkuríkjum hafast við í Norður-Líbíu. Þeir eru í sérstökum áhættuhópi vegna harðnandi átaka sem eru þau verstu frá því Muammar Gaddafi, einræðisherra, var steypt af stóli árið 2011. Þar berjast nú þeir sömu hópar og komu Gaddafi frá innbyrðis um völd.
Uppreisnarmenn frá borginni Mistrata tóku öll völd í höfuðborginni Trípóli og hafa sett á fót sína eigin ríkisstjórn. Þing og ríkisstjórn Líbíu hefur leitað skjóls í borginni Tobruk í austri. Í ágústlok brutust svo út blóðug átök milli róttækra hreyfinga Íslamista og skæruliða sem voru hliðhollir Gaddafi, en segjast nú berjast með ríkisstjórn Líbíu, í Benghazi. Því ríkir algjört neyðarástand í landinu sem óttast er að muni versna mjög hratt á næstu vikum.
Hjálparstarfsmenn á vegum IOM hafa unnið að því að koma flóttafólki í skjól og hefur mörgum verið vísað til nágrannaríkisins Túnis.
„Ef við hjálpum ekki þeim sem vilja snúa heim til sín örugglega gætu margir hætt á að fara um borð í ótrygga báta í þeirri von að komast í öruggt skjól á Ítalíu,“ segir Othman Belbeisi, yfirmaður IOM í Líbíu.
Talið er að smyglarar leiti uppi menntaðar fjölskyldur sem hafi einhvern gjaldeyri eða verðmæti til að greiða fargjaldið. Tímaritið Intelligent Life greindi í sumar frá dæmi um sýrlenska fjölskyldu sem greiddi 100 þúsund krónur á mann fyrir farið. Hún gat ekki greitt gjaldið fyrir alla og því varð elsti sonurinn eftir í Líbíu.
Dauðaferð yfir Miðjarðarhafið
Flestir þeirra báta sem eru gerðir út frá Líbíu eru á mörkum þess að teljast sjóhæfir. Eigendurnir senda flóttafólk út í opinn dauðann gegn hárri greiðslu. Hér eru nokkur dæmi um alvarleg sjóslys:
27 mars 2009
Gamall fiskibátur með 250 menn innanborðs sekkur skammt frá Líbíu. Bjargað var 21 manni. Tveir aðrir bátar týndust á sömu leið og ekki vitað um afdrif þeirra.
6 apríl 2011
Talið er að 150 manns hafi látið lífið þegar bátur sökk nærri Lampedusa á leið frá Líbíu. Ítalska strandgæslan fann aðeins 20 lík.
3 október 2013
Bátur sekkur skammt frá eynni Lampedusa út frá Ítalíu. 155 flótamönnum er bjargað úr sjónum en að minnsta kosti 360 fórust, flestir frá Eritreu, Sómalíu og Gana.
11 október 2013
Bátur með fleiri en 200 flóttamönnum frá Sýrlandi og Palestínu sekkur. 35 drukkna að minnsta kosti. Farið er með lifendur til Möltu og Ítalíu.
30 apríl 2014
Fjörutíu manns, flestir frá Sómalíu, drukkna skammt frá höfuðborg Líbíu, Trípóli. Einn maður kemst lífst af.
6 maí 2014
Talið er að 77 hafi drukknað skammt frá strönd Líbíu eftir að bátur sökk eftir um þrjátíu mínútna siglingu. Líbíska strandgæslan náði að bjarga 53 úr sjónum.
22 agúst 2014
Óttast er að allt að 250 hafi farist þegar bátur sökk innan landhelgi Líbíu á leið til Ítalíu. Líbíska strandgæslan fann ekki lík flestra farþeganna en tókst að bjarga lífi sextán manna.
24 ágúst 2014
Að minnsta kosti 25 láta lífið í tveimur sjóslysum. Ítalska strandgæslan bjargar um 370 manns sem höfðu verið um borð í öðru skipanna.
7-14 september 2014
Talið er að smyglarar hafi sökkt viljandi bát með 500 flóttamönnum innanborðs skammt frá Möltu. Óljóst er hvenær atburðurinn átti sér stað en lögreglan á Ítalíu og Möltu rannsaka hann sem fjöldamorð.
14 september 2014
Bátur sekkur austur af Trípólí. Að minnsta kosti 250 eru taldir af en 36 farþegum var bjargað.