Bandaríski afþreyingarrisinn 21st Century Fox hyggur á framleiðslu á hinum heimsfræga Duff bjór, sem hefur verið eftirlætis bjór Homer Simpson um áraraðir, í raunveruleikanum. Fyrirtækið hyggst gera bjórinn að sterku og aðlaðandi vörumerki og tilkynnti um fyrirætlanir sínar í gær. Fréttamiðillinn Time greinir frá málinu.
„Ég held að það sé möguleiki á því að það verði hægt að fá sér Duff hvar sem er í heiminum í framtíðinni,“ sagði Jeffrey Godsick, forstjóri neytendavörudeildar Fox í viðtali við the Wall Street Journal.
Þrátt fyrir að vera ekki alvöru bjór er Duff bjórinn frægur út um allan heim enda hefur Homer Simpson, ein frægasta sjónvarpsstjarna heims, ekki drukkið annan bjór í áraraðir í einni vinsælustu þáttaseríu sjónvarpssögunnar. Enda hafa bjórframleiðendur víða um heim, til að mynda í Þýskalandi, Kólumbíu og Ástralíu bruggað bjór undir merkjum Duff, sem hefur ávallt verið mætt af hörku frá Fox sem hefur krafist lögbanns á bjórframleiðsluna jafn óðum.
Nú hyggst fjölmiðlarisinn sjálfur hefja framleiðslu á Duff bjór, þar sem engar tilvísanir í Simpson þættina verður að finna á umbúðunum, heldur munu flöskurnar og dósirnar einungis líta út eins og þær í sjónvarpsþáttunum.
Í fyrstu verður vörumerkið einungis markaðsett í Sjíle, þar sem ólöglegar útgáfur af Duff bjórnum hafa nú þegar tröllriðið markaðnum. Þá verður bjórinn gerður aðgengilegur víðar í Suður-Ameríku og svo Evrópu fljótlega í kjölfarið. Ekki hefur verið gefið út hvenær Duff bjór verður tekinn í almenna sölu í Bandaríkjunum.