Fjölmörgum viðskiptavinum viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, hefur borist greiðslukrafa frá Flóttamannahjálp Íslands, áhugamannafélagi upp á 990 krónur. Kröfurnar eru merktar sem „Félagsgjöld“ jafnvel þó enginn sem hefur haft samband við Kjarnann hafi nokkurntíma heyrt af félaginu.
Flóttamannahjálp Íslands, áhugamannafélag var stofnað í janúar 2014. Hvorki UNICEF né Rauði kross Íslands hafa nokkru sinni heyrt um þetta félag. Bókhaldsdeild Rauða krossins hefur borist mörg símtöl í dag þar sem spurt er hvort greiðslukrafan sé á vegum Rauða krossins. Í kjölfar þess að Kjarninn hafði samband birtust tilkynningar á samfélagsmiðlum Rauða krossins um að þessar kröfur beri að varast.
Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu ber fólki ekki skylda til að borga kröfur sem það hefur sannarlega ekki skuldbundið sig til að borga. Að öllum líkindum sé hér um valgreiðslukröfu að ræða.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki náðst í forsvarsmenn Flóttamannahjálpar Íslands, áhugamannafélags í dag.
Nokkuð hefur verið um fyrirspurnir í dag vegna greiðslukröfu sem barst fjölda fólks í morgun frá "Flóttamannahjálp Í...Posted by Rauði krossinn on 18. september 2015