Nýir eigendur DV ætla að fá Jón Garðar Hreiðarsson, fyrrum aðaleiganda Eyjan Media, til að framkvæma úttekt á rekstri útgáfufélagsins. Það er hluti af þeirri úttekt sem á að fara fram á honum næstu misserinn. Þetta kom fram í máli Þorsteins Guðnasonar, stjórnarformanns DV, og Hallgríms Thorsteinssonar, nýs ritstjóra, á hitafundi með starfsmönnum DV á mánudag. Kjarninn hefur upptöku af fundinum undir höndum og mun birta brot af henni næstu daga. Á upptökunni heyrist Hallgrímur meðal annars segja að Jón Garðar sé „óháður og flottur gaur“.
Rekstur DV hefur verið þungur allt frá því að blaðið var flutt yfir á nýja kennitölu snemma árs 2010. Fyrrum aðaleigendur, undir forystu hins brottrekna ritstjóra Reynis Traustasonar, þurftu ítrekað að leita eftir nýju hlutafé. Sú leit varð meðal annars til þess að Reynir fékk há lán hjá Gísla Guðmundssyni, kenndum við B&L. Vangeta Reynis til að greiða þessi lán gerðu það að verkum að Gísli framseldi kröfur sínar til Þorsteins Guðnasonar sem náði í kjölfarið yfirráðum í félaginu.
Á meðal þeirra skulda sem DV glímir við eru vangreiddar lífeyrisgreiðslur sem félagið tók af starfsmönnum sínum en skilaði ekki til lífeyrissjóða. Eitt af hlutverkum Jóns Garðars á að vera að finna út umfang þessarra skulda og kanna hversu mikið fé vantar inn í reksturinn. Í kjölfarið á hann að kanna hvort það sé hægt að fá lánsfé inn í rekstur DV. Á upptökunni heyrist Þorsteinn segja: „við skuldum í rauninni ekki neinar langtímaskuldir, og það er kannski óeðlilegt í sjálfu sér.“
Veit ekki hvort að eigendur fái að skoða tölvupóst Reynis
Á þeim hluta upptökunnar sem hægt er að hlusta á hér að neðan er einnig hægt að heyra heitar umræður um hvernig Reyni Traustasyni var bolað úr starfi. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, nú fyrrum aðstoðarritstjóri DV, spyr Þorstein Guðnason meðal annars að því hvort nýir eigendur, eða fulltrúar þeirra á borð við Sigurð G. Guðjónsson, lögmann sem rekur mál á hendur DV, muni fá að skoða tölvupóst Reynis. Þorsteinn segist ekki vita hvort svo verði.
Þorsteinn segir hins vegar að Reyni, sem er nú í leyfi, verði sagt upp í fyllingu tímans. Einn starfsmaður sem tekur til máls á fundinum kallaði eftir því að nýir eigendur, sem hefðu unnið hatramma baráttu um eignarhaldið, myndu vinna með reisn. Hann fylgdir því eftir og segir við Þorstein: „ímyndin sem þú ert að gefa því [DV] út á við, hún sökkar Þorsteinn.“
[audio mp3="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/09/upptaka_03.mp3"][/audio]