Starfsmenn DV fóru fram á það á starfsmannafundi á mánudag að fá útskýringar á hvernig staðið var að brottrekstri Reynis Traustasonar og á þeim ávirðingum sem bornar hafa verið á Reyni og ritstjórnina. Ljóst er að starfsmenn ritstjórnar líta svo á að þær ásakanir sem bornar hafa verið á Reyni vegna lántaka hans hjá Guðmundi Kristjánssyni, kenndum við Brim, og yfirlýsingar um rannsókn á honum beinist einnig gegn þeim. Þetta er meðal þess sem kemur fram á upptöku af hitafundi sem starfsmenn DV áttu með Þorsteini Guðnasyni, stjórnarformanni og stærsta eiganda DV, og Hallgrími Thorsteinssyni, nýráðnum ritstjóra DV, á mánudag. Kjarninn er með upptökuna undir höndum. Hægt er að hlusta á brot af henni neðst í þessari frétt. Upptakan verður birt í heild sinni óklippt þegar umfjöllun Kjarnans um málið lýkur.
Sagði eldvegg vera á milli ritstjórnar og blaðamanna
Þorsteinn Guðnason, stjórnarformaður og stærsti eigandi DV, reyndi að malda í móinn og sagði: „Það er eldveggur á milli ritstjórnar og blaðamanna“. Ummælin vöktu upp mikla reiði enda blaðamenn hluti af ritstjórn. Þorsteinn dró þau síðar til baka. Þorsteinn hélt hins vegar áfram og sagði: „Tölum hreint út um þetta. Reynir fékk lánaðar 15 milljónir hjá Guðmundi Kristjánssyni. Það var talað um það að hann hafi skrifað í þökk Guðmundar. Það er staðreynd ,[...] Þessi ávirðing hefur komið fram.“ Hann rekur síðan að Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hafi meðal annars sett fram þessa ávirðingu. Það hefur Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Þorsteins, einnig ítrekað gert á opinberum vettvangi. „Það er óábyrgt af stjórnarmanni að taka ekki við þessum ávirðingum sem koma fram og sinna því ekki. Það sem við viljum gera er að hreinsa blaðið af þessu.“
Starfsmenn DV tóku þessum svörum alls ekki vel. Þeim hefur sviðið ávirðingarnar mjög og bent á að þær fréttir sem notaðar hafa verið til að styðja við þær hafi verið skrifaðar löngu áður en Reynir fékk lán hjá Guðmundi Kristjánssyni. Auk þess hefur framganga og hlutverk Sigurðar G. Guðjónssonar í yfirtökunni á DV farið mjög fyrir brjóstið á þeim. Sérstaklega þegar Sigurður mætti í höfuðstöðvar DV á stjórnarfund með hatt og glott, en sambærilegur hattur er eitt aðaleinkennismerki Reynis Traustasonar, fráfarandi ritstjóra. Þorsteinn sagði á fundinum að hann bæri ekki ábyrgð á Sigurði G., en líkt og áður sagði þá er Sigurður G. lögmaður Þorsteins.
Nýir eigendur settu fram ávirðingarnar
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, sem nýverið sagði upp störfum sem aðstoðarritstjóri DV, fór mikinn á fundinum. Í máli hennar kom fram að henni svíði að nýir eigendur vilji að láta fara fram faglega úttekt á störfum starfsmanna DV vegna ávirðinga „sem settar eru fram af ykkur, engum öðrum.“ Vert er að taka fram að nýir eigendur DV féllu frá því að láta framkvæma faglega rannsókn á ritstjórninni eftir fundinn.
Hægt er að hlusta á brot af fundinum tengt efni fréttarinnar hér að neðan.
[audio mp3="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/09/upptaka_02.mp3"][/audio]