Hallgrímur Thorsteinsson, nýráðinn ritstjóri DV, segir Sigurð G. Guðjónsson, lögmann sem hefur verið lykilleikari í yfirtöku nýrra eigenda á DV, hafa hagað sér fáránlega. Hallgrímur lét þau orð falla á starfsmannafundi á mánudag. Kjarninn hefur upptökur af fundinum undir höndum.
Orðrétt sagði Hallgrímur: „Mér finnst það fáránlegt hvernig Sigurður G. Guðjónsson hefur hegðað sér í þessu máli. Ég verð að segja það.“ Tilefni umræðunnar var óánægja starfsmanna DV með það sem Sigurður G. hafði sagt í opinberri umræðu daganna á undan og hvernig hann hagaði sér þegar fyrsti stjórnarfundur nýrrar stjórnar DV var haldin. Sigurður G. sást þá í fréttatímum með hatt, sambærilegan einkennisklæðnaði Reynis Traustasonar, og glottandi út að eyrum. Starfsfólki fannst Sigurður G. ekki hafa hagað sér með mikilli reisn.
Hallgrímur tekur að sumu leyti undir gagnrýni starfsmanna á brotthvarf Reynis, en hann hefur verið sendur í leyfi og er því tæknilega enn starfsmaður DV. Ljóst er þó að honum verður sagt upp og starfsmenn fóru fram á að slíkt yrði gert. Hallgrímur segir á upptökunni að hann „hefði kosið að þessi skil í rekstrinum væru miklu hreinlegri.“ Hann segir einnig að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem hann upplifi svona glundroða á vinnustað. Aðstæðurnar séu þvert á móti ákveðið dejavú frá þeim tíma sem hann starfaði á Útvarpi Sögu.
Hægt er að hlusta á upptöku af fundinum hér að neðan.
[audio mp3="http://kjarninn.s3.amazonaws.com/old/2014/09/upptaka_04.mp3"][/audio]