Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um rafræna auðkenningu liggur nú fyrir samráðsgátt stjórnvalda þar sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, leggur til að dvalarleyfiskort, útgefin af Útlendingastofnun, verði bætt á lista yfir viðurkennd persónuskilríki við útgáfu rafrænna skilríkja.
Í umsögn á samráðsgátt stjórnvalda segir að á fundi Velferðarnets Suðurnesja með fulltrúum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu 9. september síðastliðinn hafi verið vakin athygli á því að hópur fólks af erlendum uppruna geti ekki fengið rafræn skilríki, sérstaklega í tilviki flóttafólks.
Í tilkynningu frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu segir að rót vandans liggi í því að til viðurkenndra persónuskilríkja, sem krafist er við útgáfu rafrænna skilríkja, teljast vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini gefin út af Þjóðská Íslands eða samsvarandi erlendum stjórnvöldum. Slík persónuskilríki eru tekin af flóttafólki við komuna til landsins og því er ómögulegt fyrir þann hóp fólks að nálgast rafræn skilríki.
„Þetta getur valdið verulegu óhagræði fyrir þennan hóp sem á erfitt með að sækja sér ýmsa þjónustu án rafrænna skilríkja,“ segir í umfjöllun um breytingu á reglugerðinni í samráðsgátt.
Aldrei fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd
Umsóknir um alþjóðlega vernd hafa aldrei verið fleiri og eru 2.718 það sem af er ári að því er segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra, sem hækkaði í síðustu viku viðbúnaðarstig á landamærum á hættustig vegna fjölda flóttamanna. Embættið reiknar með að umsækjendum um alþjóðlega vernd muni fjölda enn frekar það sem eftir lifir árs.
Flestar umsóknirnar eru frá Úkraínu en frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar hafa 1.646 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Næst stærsti hópurinn er frá Venesúela, 537 manns, og þriðji fjölmennasti hópurinn telur 119 manns sem öll hafa tengsl við Palestínu. Með reglugerðarbreytingunni á að auðvelda þessum hópi, sem og öðrum af erlendum uppruna, að sækja sér ýmsa þjónustu.
Dvalarleyfiskort verði viðurkennd persónuskilríki líkt og vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini
Um er að ræða reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyri rafræn skilríki. Til þess að gefa út rafræn skilríki þarf, samkvæmt reglugerðinni, að styðjast við gild og viðurkennd persónuskilríki.
Til slíkra teljast vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands eða nafnskírteini með mynd sem gefin eru út af samsvarandi erlendum stjórnvöldum.
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið vill skoða þann möguleika að við þennan lista bætist einnig dvalarleyfiskort, útgefin af Útlendingastofnun. Dvalarleyfiskort eru aðeins gefin út að undangenginni ítarlegri skoðun á grundvelli reglna sem samræmdar eru innan Schengen svæðisins.
Í drögunum er lögð til breyting á reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Í drögunum er lagt til að dvalarleyfiskort sem útgefin eru af Útlendingastofnun teljist til gildra persónuskilríkja vegna útgáfu rafrænna skilríkja.
Ráðuneytið leggur jafnframt til að reglugerðin verði uppfærð með vísan til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, en þeim var breytt með lögum nr. 18/2021 um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, og fer nú Fjarskiptastofa með framkvæmd eftirlits samkvæmt lögunum. Því er lagt til að reglugerðinni verði breytt til samræmis.
Hægt er að senda inn athugasemdir í samráðsgátt til 17. október.
Fréttin hefur verið uppfærð.