E-töflur, ketamín, metamfetamín og hundruð annarra fíkniefna urðu lögleg á Írlandi í dag. Ástæðan er sú að lög um misnotkun fíkniefna frá árinu 1997 voru úrskurðuð í andstöðu við stjórnarskrá fyrir dómstólum þar í landi og féllu við það úr gildi. Lögin ná yfir vímugjafa sem búnir eru til úr löglegum efnum. Þekkt fíkniefni á borð við heróín, kókaín og kannabis eru áfram ólögleg þar sem önnur lög banna neyslu þeirra. Frá þessu er greint á vef Business Insider.
Írsk stjórnvöld vinna nú að því að setja lög sem laga þessa stöðu og er talið að þau verði samþykkt í kvöld. Þrátt fyrir það munu lögin ekki geta tekið gildi fyrr en daginn eftir að þau eru undirrituð og því er neysla ofangreidra fíkniefna lögleg í Írlandi í dag.
Í tilkynningu frá írskum stjórnvöldum kemur fram að fíkniefnasalar ættu ekki að fagna þessum tíðindum sérstaklega. Sala og dreifing efnanna er enn lögbrot þar sem sú iðja heyrir undir aðra löggjöf en þá sem var felld úr gildi í dag.
. @campaignforleo statement on the temporary legalisation of ecstasy (among other drugs) pic.twitter.com/tO84E7H8Xf
— TheJournal Politics (@TJ_Politics) March 10, 2015