Vísindamenn í Senegal hafa þróað próf sem getur greint á fimmtán mínútum hvort sjúklingur sé sýktur af ebólu-veirunni. Fréttamiðillinn Quartz greinir frá málinu.
Prófið er meðfærilegt, knúið með sólarrafhlöðum, og mun ryðja úr vegi öðrum seinvirkari prófunum með því að greina sjúkdóminn á mun skemmri tíma. Prófið er sex sinnum fljótara að greina ebólu-smit en önnur próf, sem notast hefur verið við til þessa.
Þróun prófsins er í umsjón Pasteur stofnunarinnar í Dakar, og er fjármagnað að hluta af breskum stjórnvöldum.
Áreiðanlegt fimmtán mínútna próf sem getur staðfest ebólusmit myndi vera mikilvægt vopn í baráttunni við útbreiðslu sjúkdómsins, þar sem sjúklingar geta verið greindir, einangraðir og meðhöndlaðir á sem skemmstum tíma. Fljótvirkt próf sem þetta, myndi auka lífslíkur smitaðra og hindra frekari útbreiðslu sjúkdómsins.
Vísindamenn hjá Pasteur stofnuninni munu á næstu vikum prófa greiningarprófið hjá Ebólu-miðstöðinni í Gíneu. Til þessa hefur sjúkdómurinn dregið 5.50o manns til dauða, þar af ríflega tólf hundruð bara í Gíneu.