Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir átakanlegt að enginn frambjóðandi í nýafstöðnu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hafi lýst stuðningi við þá nýju, grænu og spennandi Reykjavík sem nú sé að taka á sig mynd, og að á meðan svo sé efist hann um að „þverklofinn Sjálfstæðisflokkur” sé stjórntækur til að leiða borgina á næstu árum. Hildur Björnsdóttir, nýkjörinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, segir flokkinn hafa sína eigin stefnu.
Þetta kemur fram í færslum Dags og Hildar á Facebook, en þau þegar farin að skjóta föstum skotum hvort á annað í gegnum samfélags- og fjölmiðla nú í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna.
Í umfjöllun um niðurstöður könnunar um viðhorf til borgarlínu og þéttingu byggðar eftir stuðningi við flokka, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun, sakar Hildur borgarstjóra um að hafa skapað menningarstríð þar sem fólki sé skipt í fylkingar eftir því hvernig það velji að lifa sínu lífi og að meirihlutaflokkunum hafi „algjörlega mistekist að skapa sátt um framtíðar samgöngur og skipulag í borginni sem hefur leitt til vantrausts og óánægju”.
Þessu er Dagur ósammála og segir í fyrrnefndri færslu á Facebook að meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn séu sannarlega samstíga í þessum efnum, sem og nágrannasveitarfélögin, sem öllum sé stjórnað af Sjálfstæðisflokknum, og ríkisstjórnin sem eigi heiður og aðild að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Segir Dagur að klofningurinn sem Hildur talar um sé fyrst og fremst innan Sjálfstæðisflokksins.
Borgarstjóri fjallaði einnig um ólíka sýn flokkanna varðandi framtíð borgarinnar í ræðu sinni á Reykjavíkurþingi Samfylkingarinnar, þar sem hann sagði að í hans huga væri augljóst að í borgarstjórnarkosningunum verði kosið um „Nýju Reykjavík” og hvort hún eigi að vera fyrir alla, með jöfnu aðgengi að skemmtilegri borg hágæðaþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, eða hvort klofinn Sjálfstæðisflokkurinn fái tækifæri til að snúa borginni til baka í gráa og gamla átt.
Þannig hafi Sjálfstæðisflokkurinn lagt til að selja eigi félagslegar íbúðir í stað þess að fjölga þeim, dreifa eigi byggð, sem Dagur segir muni auka umferð og tafartíma og grafa undan almenningssamgöngum og draga úr markmiðum í loftslagsmálum. Þá vilji Sjálfstæðisflokkurinn mislæg gatnamót inni í miðri borg í stað þess að setja umferðina undir yfirborðið í stokk og setja þannig mannlíf, græn svæði og borgartorg í forgang í nýju og betra borgarskipulagi.
Húsnæðissáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið
Þá kallaði Dagur í ræðu sinni eftir húsnæðissáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið og sagði það ekki ganga lengur að Reykjavík dragi ein vagninn í íbúðauppbyggingu og húsnæðismálum fyrir tekjulága. „Við höfum líka fjölgað félagslegu húsnæði fyrir þá sem hafa minna á milli handanna en því miður aðrir ekki. Þar þurfum við að fá ríkið og nágrannasveitarfélögin með okkur eins og við gerðum í samgöngumálunum,“ sagði Dagur í ræðu sinni og bætti við að með slíkum húsnæðissáttmála mætti tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og íbúðum fyrir alla. Þá þurfi ríkið að koma að borðinu með mun markvissari húsnæðisstuðningi, ekki aðeins í átökum eða til skamms tíma, heldur stórhuga, jafnt og þétt og til lengri tíma.
„Heildstæður húsnæðissáttmáli til lengri tíma er það sem samfélagið þarf. Reykjavík hafði frumkvæði að samgöngusáttmálanum sem er gríðarlega mikilvægur fyrir innviðauppbyggingu. Nú þurfum við sömu samstöðu, sameiginlega framtíðarsýn og vinnubrögð til að gera bragarbót á húsnæðismálunum.“