Refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna innrásarinnar í Úkraínu munu sennilega skipta litlu máli fyrir gang stríðsins, þar sem venjulega dregur úr biti slíkra aðgerða ef þeim er beitt lengi. Þetta segir Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Samkvæmt Sigurði hefur æ oftar verið gripið til viðskiptaþvingana á síðustu eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, enda séu efnahagslegar refsiaðgerðir oft ákjósanlegri en hernaður í huga flestra. Fyrst um sinn stunduðu einkum Bandaríkjamenn slíkar aðgerðir gegn öðrum þjóðum, en þegar leið að aldamótum voru Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið einnig farin að beita þeim.
Sigurður bendir líka á samantekt um 200 refsiaðgerðir sem var beitt á síðustu öld, en samkvæmt honum hafði meirihluti þeirra engin áhrif á stefnu landa sem þær beinast gegn. Árangurinn væri þeim mun minni sem meira væri í húfi, en þegar aðgerðum er beint að stríðsrekstri voru einungis 20 prósent líkur á að þær hefðu áhrif.
Einnig bendir Sigurður á að mesti krafturinn fari jafnan úr refsiaðgerðum eftir eitt til tvö ár. Þá hafi löndin sem refsað er oftast fundið nýja viðskiptavini í stað þeirra sem standa fyrir aðgerðunum.
„Vestræn ríki grípa núna til víðtækari refsinga en áður,“ segir Sigurður. „ Þær valda meiri óþægindum fyrst um sinn, en óþægindin minnka með tímanum og Rússar munu sennilega þola þau,“ bætir hann við.
Samkvæmt honum dregur það úr biti aðgerðanna að fjölmargar þjóðir taka ekki þátt í þeim, og því geti Rússar fundið sé nýja markaði. Ekki virðist hafa komið til tals að Mið-Evrópuþjóðir hætti að kaupa olíu og gas af Rússum og því muni núverandi refsiaðgerðir vestrænna ríkja sennilega ekki hafa mikil áhrif á stefnu ráðamanna í Rússlandi.
Hægt er að lesa grein Sigurðar í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.