Hátt á annan tug fjölmiðla víða um heim hófu í gærmorgun að birta fréttir af því að háþróuðum njósnabúnaði frá ísraelska fyrirtækinu NSO Group hafi verið beitt af hálfu ríkisstjórna í allnokkrum löndum á undanförnum árum til þess að njósna um ýmsa aðila, til dæmis blaðamenn, stjórnmálamenn og aðgerðasinna.
Blaðamennskusamtökin Forbidden Stories, sem hafa starfsemi í Frakklandi, komust ásamt mannréttindasamtökunum Amnesty International yfir mikið magn gagna, nánar tiltekið lista 50 þúsund símanúmera sem virðast hafa verið valin til eftirlits með Pegasus-njósnatólinu. Yfir 80 blaðamenn frá sextán fjölmiðlum í ellefu löndum unnu að greiningu gagnanna og birta nú umfjallanir um það sem þau hafa komist að.
Vegna þessa leka fær almenningur nú innlit í varhugaverða notkun stjórnvalda í ríkjum á borð við Aserbaídsjan, Bahrein, Kasakstan, Marokkó, Mexíkó, Rúanda, Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Indlandi og Ungverjaland á þessu njósnatóli, sem talið er eitt hið öflugasta sem til er í heiminum.
Pegasus-tólið sýkir síma þeirra sem er ráðist er gegn og færir þeim sem notar Pegasus um leið aðgang að öllum gögnum í símanum, auk möguleikans á því að kveikja á míkrafóni og myndavél símans og hlusta þannig á þann sem fyrir njósnunum verður, án þess að fórnarlambið verði þess vart.
Sérfræðingar á vegum Amnesty International skoðuðu 67 síma sem voru tengdir símanúmerum á listanum og fundu merki um Pegasus-sýkingu eða merki um tilraun til þess að sýkja símana í alls 37 tilfellum. Ekkert fannst í þeim 30 símum sem eftir stóðu, en í fjölda tilfella var sá sem átti símanúmer á listanum búinn að skipta um síma.
Af þessari rannsókn er sú ályktun dregin að þeir sem eiga símanúmer á listanum hafi verið valdir sem skotmörk Pegasus-árása.
Fram hefur komið í umfjöllunum fjölmiðla að á listanum séu hátt í 200 blaðamenn víða um heim og einnig að minnsta kosti 50 manns sem eru náin núverandi forseta Mexíkó, Andrés Obrador, á þeim tíma er hann var í stjórnarandstöðu í landinu. Þá hefur Rahul Gandhi, helsti keppinautur indverska forsætisráðherrans Narendra Modi komið fyrir á Pegasus-listanum. Í Ungverjalandi er ríkisstjórn Viktors Orbán sökuð um að nota tæknina til þess að fylgjast með blaðamönnum.
Einnig hefur Carine Kanimba, dóttir Paul Rusesabagina, mannsins sem varð innblástur kvikmyndarinnar Hótel Rúanda, orðið fyrir árásum með hugbúnaði frá NSO Group. Faðir hennar situr í fangelsi í Rúanda fyrir að hafa sett fram gagnrýni á ríkisstjórn Paul Kagame.
Segja vöru sína selda í góðri trú
NSO Group, ísraelska fyrirtækið sem þróar og selur njósnahugbúnaðinn, hefur staðfastlega neitað því að kannast nokkuð við þennan lista 50 þúsund símanúmera sem varð kveikjan að umfjöllun fjölmiðla. Fyrirtækið segir vöru sína einungis selda í þeim tilgangi að hafa uppi á glæpamönnum og hryðjuverkamönnum.
Shalev Hulio, framkvæmdastjóri NSO Group, sagði við bandaríska blaðið Washington Post, eftir að fjölmiðlar hófu að birta fréttir í gær, að ásakanir um ólögmæta notkun njósnatólsins yrðu skoðaðar, en uppljóstranir fjölmiðla hafa orðið kveikja að umræðu um það hvort það þurfi að koma frekari böndum á starfsemi fyrirtækja í eftirlitsiðnaðinum. Fyrirtækið segist hafa hætt viðskiptum við tvo viðskiptavini á undanförnu ári vegna mannréttindabrota, en segir ekki frá því hvaða ríkið það eru.
Samkvæmt frétt Washington Post er NSO Group með 60 viðskiptavini í 40 ríkjum, leyniþjónustur, heri og löggæslustofnanir. Fyrirtækið vill ekki segja frá því hverjir viðskiptavinir þess eru.
Snowden kallar eftir hömlum á útbreiðslu njósnahugbúnaðar
Uppljóstranir fjölmiðla hafa nú þegar komið af stað umræðu um alþjóðlega eftirlitsiðnaðinn og hættur sem honum fylgja.
Edward Snowden, sem árið 2013 ljóstraði upp um leynilegt fjöldaeftirlit bandarísku leyniþjónustustofnunarinnar NSA, segir við breska blaðið Guardian að ríkisstjórnir heims verði að setja á viðskiptabann með njósnabúnað eða horfast í augu við heim þar sem ekki einn einasti snjallsími er öruggur frá innbrotum hakkara á vegum ríkja.
Snowden segir að rafrænt eftirlit með einstaklingum sé orðið of einfalt með tilkomu háþróaðs njósnabúnaðar eins og Pegasus. Er hann var spurður af blaðamanni Guardian hvað fólk gæti gert til að verja sig gagnvart slíkum árásum líkti hann ógninni við kjarnorkuvopn. Það væri lítil von til varnar.
„Það eru ákveðnir geirar sem engin vörn finnst við og það er þess vegna sem við reynum að hefta útbreiðslu þessarar tækni. Við leyfum ekki frjálsa verslun með kjarnorkuvopn,“ segir Snowden.
Á vef Forbidden Stories er hægt að nálgast tengla á allar umfjallanir sem hafa birst til þessa um Pegasus-verkefnið.