Fjöldi útgefinna kaupsamninga um íbúðarhúsnæði í apríl nam 699 talsins, sem gera 752 þegar leiðrétt er fyrir reglubundnum árstíðasveiflum, og hefur fjöldi kaupsamninga ekki verið lægri síðan í maí 2020 en þá hafði tímabundið dregið úr umsvifum á íbúðamarkaði í upphafi samkomutakmarkana. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar (HMS).
Það virðist því vera tekið að róast á fasteignamarkaðinum. Mesti samdráttur í fjölda kaupsamninga er á höfuðborgarsvæðinu. Þar voru kaupsamningar um íbúðarhúsnæði alls 461 talsins miðað við árstíðarleiðréttar tölur í apríl. Fjöldi kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki verið lægri í einum mánuði síðan sumarið 2014. Umsvifin hafa ekki dregist jafn mikið saman í sveitarfélögunum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, kaupsamningum fækkaði engu að síður um 16,7 prósent á milli mánaða í þeim sveitarfélögum.
Mörg met engu að síður slegin í apríl
Þrátt fyrir að umsvifin hafi dregist lítillega saman í apríl hefur fjöldi íbúða sem selst yfir ásettu verði aldrei verið jafn mikill hlutfallslega. Í mánuðinum seldust 54 prósent íbúða á landinu yfir ásettu verði, sem er met. Á höfuðborgarsvæðinu nam hlutfall íbúða í fjölbýli sem seldust yfir ásettu verði 65 prósentum. 53 prósent sérbýla á höfuðborgarsvæðinu seldist yfir ásettu verði. Hlutfallið er lægra á landsbyggðinni. Þar seldust 48 prósent íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og 32 prósent sérbýla.
„Í öllum tilfellum er um met að ræða,“ segir í skýrslu HMS.
Annað met var slegið í apríl en meðalsölutími íbúða hefur aldrei verið jafn stuttur. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalsölutími 34,7 dagar. „Þar af tók aðeins 30,7 daga að selja íbúðir í fjölbýli en 49 daga að selja sérbýli. Stystan tíma tók að selja íbúðir á 30-40 m.kr. Eða að jafnaði 23 daga en það tók að jafnaði 26 daga að selja 40-50 m.kr. íbúðir og 43 daga að selja íbúðir sem seldust á yfir 80 m.kr,“ segir í skýrslunni.
Einnig var um metsölutíma að ræða á landsbyggðinni í mánuðinum. Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var meðalsölutíminn 38,8 dagar en annars staðar á landsbyggðinni var meðalsölutíminn 53,6 dagar.
Árshækkun á og í kringum höfuðborgarsvæðið 22 prósent
Í skýrslu HMS segir að íbúðaverð sé enn á hraðri uppleið. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,9 prósent á milli mars og apríl en verðið hefur hækkað um 6,7 á undanförnum þremur mánuðum. Verðið hefur hækkað um 22 prósent á einu ári miðað við vísitölu söluverðs.
Í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hækkaði íbúðaverð um 0,3 prósent milli mánaða. Árshækkunin er sú sama og á höfuðborgarsvæðinu, 22 prósent. Annars staðar á landsbyggðinni hækkaði íbúðaverð um 2,3 prósent á milli mánaða en þar mælist árs hækkun 20,2 prósent.
Framboð íbúða farið að aukast
Um þessar mundir koma koma fleiri íbúðir inn á markaðinn heldur en seljast, að því er fram kemur í skýrslunni. Framboð íbúða hefur farið ört vaxandi frá því í febrúar þegar framboðið var sem lægst. Í júníbyrjun voru 595 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við 503 íbúðir mánuði áður. Fleiri sérbýli hafa komið inn á markaðinn að undanförnu en íbúðir í fjölbýli. Framboð á nýjum íbúðum helst nokkuð stöðugt en aukning hefur orðið á framboði eldri íbúða.
Svipaða sögu er að segja af framboðinu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Í byrjun júní voru 243 íbúðir til sölu í nágrannasveitarfélögunum, samanborið við 212 í byrjun maí.