„Ég lít á þetta sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi“

Formaður Blaðamannafélags Íslands telur að aðgerðir starfsmanna og ráðgjafa Samherja um að hafa áhrif á formannskjör í félaginu í síðasta mánuði hafi ekki einungis beinst gegn henni heldur líka gegn mótframbjóðanda hennar.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Auglýsing

„Ég lít á þetta sem alvarlega aðför að kjöri formanns í fag- og stéttarfélagi sem er algjörlega ólíðandi. Aðgerðunum sem þarna er lýst er ætlað að koma í veg fyrir lýðræðislegt val á formanni. Þetta eru aðgerðir sem beinast ekki einungis gegn mér heldur einnig mótframbjóðanda mínum [Heimi Má Péturssyni, fréttamanni á Stöð 2] því ég treysti mér að fullyrða að hann hafi ekki haft neina hugmynd um þessa atlögu að mér. Né heldur hefði hann verið henni samþykkur enda þekki ég hann að því einu að vera staðfastur og heiðarlegur prinsippmaður.“

Þetta segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Kjarninn greindi frá því í fréttaskýringu í dag að gögn sem hann hefur undir höndum, og sýna samskipti starfsmanna og ráðgjafa Samherja, sýna að þeir reyndu að hafa áhrif á niðurstöðu formannskjörs í Blaðamannafélagi Íslands. Ástæða þess að hópurinn taldi nauðsynlegt að grípa inn í formannskjör í stéttar- og fagfélagi blaðamanna á Íslandi var sú að hann taldi að um yfirtöku RÚV á félaginu væri að ræða og að það yrði í kjölfarið notað gegn Samherja.
„Það er grafalvarlegt og algjörlega ólíðandi að samfélagslega mikilvægt fyrirtæki á borð við Samherja geri tilraun til þess að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri Blaðamannafélags Íslands. Ég tel engar líkur á því að þessi tilraun þeirra til að hafa áhrif á formannskjörið hafi skilað árangri því blaðamenn, sama á hvaða miðli þeir starfa, eru upp til hópa prinsippfastir og heiðarlegir. Á íslenskum fjölmiðlum starfar mikið hugsjónafólk sem hefur metnað fyrir starfinu sínu og faginu og myndi aldrei láta undan þrýstingi sem þessum. Það breytir því þó ekki að tilraunin sjálf er í eðli sínu mjög alvarleg og vekur upp spurningar um hvernig stéttin og samfélagið allt geti brugðist við í ljósi þess hvaða aðferðum hagsmunaöfl eru farin að beita til þess að stýra umræðunni í landinu.“

Vekur upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við

Sigríður segir að þessi aðför Samherja veki einnig upp spurningar um hvernig samfélagið allt þurfi að bregðast við árásum á blaðamenn og fjölmiðla í ljósi þess að fjölmiðlar standa nú veikari fótum en áður til þess að veita nauðsynlega mótspyrnu. „Það er ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra hve rekstrargrundvöllurinn hefur veikst, heldur varðar það samfélagið allt því grundvöllur lýðræðisins eru frjálsir, óháðir fjölmiðlar sem geta veitt stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Ísland hefur færst neðar á lista Blaðamanna án landamæra (RSF) um fjölmiðlafrelsi og er staðan hér metin töluvert lakari en á hinum Norðurlöndunum. Sú þróun er sannarlega ekki í þágu samfélagsins en mögulega hagsmunaaflanna sem hafa hag af því að um þau sé ekki fjallað með gagnrýnum hætti.“

Auglýsing

Varðandi þær ávirðingar sem fram koma í máli hópsins um ákvörðun Sigríðar um að bjóða sig fram til formennsku í Blaðamannafélagi Íslands og kosningabaráttuna vil Sigríður taka það fram að engar hópskráningar áttu sér stað í félagið í aðdraganda kosninganna, hvorki fyrir hvatningu hennar né mótframbjóðanda hennar, Heimis Más. „Það getur framkvæmdastjóri og stjórn vottað. Kosningabarátta okkar beggja var lágstemmd, heiðarleg og málefnaleg og ég lít á mig sem formann allra félaga í Blaðamannafélagi Íslands, sama á hvaða miðli þeir starfa, enda höfum við öll sömu hagsmuna að gæta, að vernda stéttina og tryggja að hér starfi sjálfstæðir, frjálsir fjölmiðlar í þágu lýðræðisins.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent