Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi hf. hefur sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst næstkomandi og gert hefur verið samkomulag um starfslok hans, samkvæmt tilkynningu Festi til Kauphallar.
Í tilkynningu um starfslok forstjórans segir að Festi, sem í dag rekur N1, Krónuna, Elko, Bakkann og fasteignafélag Festi, standi nú á tímamótum eftir uppbyggingu undanfarinnar ára og að Eggert telji að á þessum tímamótum sé æskilegt að leitað verði til nýs einstaklings til að leiða starfsemina.
Eggert Þór hóf störf hjá N1 árið 2011 sem fjármálastjóri og varð forstjóri félagsins árið 2015. N1 keypti svo gamla Festi, þ.e. ELKO, Krónuna, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel árið 2018 og tók nýja móðurfélagið upp nafnið Festi. Haft er eftir Eggert í tilkynningu að það hafi verið „stefnumótandi og mikilvæg kaup til að undirbúa félagið að orkuskiptum og þeim breytingum sem eru að verða í okkar samfélagi.“
„Ég hef verið lánssamur að vinna með frábæru samstarfsfólki á þessum árum sem hafa gert Festi og dótturfélög af því sem þau er í dag. Ég mun sakna þess að vinna með þessu fólki en er einnig spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér,“ er einnig haft eftir Eggerti.