Æðsti saksóknari í Egyptalandi hefur formlega lagt bann á alla umfjöllun fjölmiðla um dauðsföll mexíkóskra ferðamanna og leiðsögumanna um síðustu helgi. Bannið var sett í kjölfar loforða utanríkisráðherra landsins um að atburðurinn fái ítarlega og gagnsæja rannsókn. Gagnrýnendur telja að bannið geti verið partur af tilraunum stjórnvalda í Egyptalandi til að hylma yfir það sem raunverulega gerðist.
Síðastliðna helgi drápu öryggissveitir átta ferðamenn frá Mexíkó og fjóra egypska leiðsögumenn í loftárásum. Öryggissveitirnar töldu sig vera að ráðast á hóp hryðjuverkamanna í eyðimörkinni í vesturhluta landsins.
Egyptar báðu stjórnvöld í Mexíkó afsökunar á dauðsföllum ferðamannanna. Samkvæmt frétt New York Times um framvindu málsins þá flaug utanríkisráðherra Mexíkó til Egyptalands fyrr í þessari viku til að grennslast frekar um atburðarásina. Í kjölfarið var gefin út sameiginleg yfirlýsing þar sem ítarlegri rannsókn var lofað af hálfu egypskra stjórnvalda - og öll fréttaumfjöllun um málið bönnuð.