Lífefnafræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Tim Hunt á ekki sjö dagana sæla eftir að hafa farið niðrandi orðum um konur á ráðstefnu í Suður-Kóreu á dögunum. Þar sagði Hunt um konur í vísindageiranum: „Lofið mér að segja ykkur frá vanda mínum varðandi stelpur. Það er þrennt sem gerist þegar þær eru á rannsóknarstofunni. Maður verður ýmist ástfanginn af þeim, eða þær ástfangnar af manni, og þegar maður gagnrýnir þær fara þær að skæla.“
Ummælin vöktu skiljanlega hörð viðbrögð, en Hunt kveðst hlynntur kynjaskiptum rannsóknarstofum. Viðbrögðin urðu meira að segja til þess að Hunt sagði upp stöðu sinni við University College í Lundúnum. Þá hafa vísindakonur víða um heim sameinast á Twitter þar sem þær keppast við að hafa ummæli breska vísindamannsins að háði og spotti undir myllumerkinu #distractinglysexy.
Kveðst búinn að vera
Í ítarlegu viðtali við breska fréttamiðilinn Guardian, ásamt eiginkonu sinni, þvertekur Hunt fyrir að hann hafi ætlað sér að móðga konur í vísindaheiminum, hann hafi einungis gerst sekur um lélega kímnigáfu og kaldhæðni, en viðurkennir að hann hefði ekki átt að láta þau falla.
Hunt segir að ferill sinn í vísindum sé á enda runninn eftir ummælin umdeildu. „Ég hafði hugsað mér að gera miklu meira til að vinna vísindum frekari framgang hérlendis og annars staðar í Evrópu, en nú verður ekkert af því. Ég er orðinn mengaður og akademíska samfélagið hefur ekki einu sinni haft fyrir því að fá mína hlið mála,“ segir Hunt í samtali við Guardian.
Eiginkona Hunt, háskólaprófessorinn Mary Collins, sem skilgreinir sig sem femínista, viðurkennir að ummæli eiginmannsins hafi verið „ótrúlega heimskuleg.“ Hún tók einnig til varna fyrir eiginmann sinn. „Ég skil alveg að orð hans hafi móðgað einhverja sem þekkja hann ekki. Ég hefði aldrei þolað að eyða ævinni með honum ef hann væri karlremba.“