Á meðan erlendir fjárfestar bættu lítillega við sig í eignarhlutum íslenskra fyrirtækja í fyrra dró verulega úr skuldastöðu þeirra við útlönd. Samtals námu lánakröfur og eignarhlutir erlendra aðila hérlendis 960 milljörðum árið 2020 og hefur sú upphæð ekki verið jafnlág í átta ár.
Þetta kemur fram þegar nýbirtar tölur Seðlabankans um beina fjárfestingu eru skoðaðar. Tölurnar eru birtar árlega, en í þeim má bæði finna eignastöðu erlendra aðila hérlendis og innlendra aðila erlendis.
Samkvæmt þeim jókst bein fjármunaeign innlendra aðila erlendis um 6 prósent í ár, úr 647 milljörðum króna í 689 milljarða króna. Á sama tíma veiktist gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hennar um 11 prósent, svo eignamyndunin hélst ekki í takt við gengisþróun. Því má ætla að innlendir aðilar hafi selt eitthvað af erlendum eignum sínum.
Fjármunaeign erlendra aðila hérlendis minnkaði hins vegar, úr 1.019 milljörðum króna niður í 959 milljarða króna. Þar var öll lækkunin vegna bættrar skuldastöðu íslenskra fyrirtækja við erlend fyrirtæki, en kröfur erlendra aðila í þeim lækkuðu um rúm 14 prósent á árinu. Eignarhlutur erlendra aðila í eigin fé íslenskra fyrirtækja hélst þú nokkuð stöðugur á árinu, en hann hækkaði um 1,3 prósent.
Líkt og Kjarninn hefur áður hafa nokkrar breytingar verið á erlendri hlutabréfaeign í Kauphöllinni á síðustu mánuðum. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management, sem voru lengi vel stærstu einstöku eigendur Arion banka, hafa selt megnið af eignarhlutinum sínum síðan í fyrrahaust. Sömu sögu er að segja um aðra erlenda fjárfesta í bankanum sem komu inn í hluthafahóp hans vegna þess að þeir voru kröfuhafar í Kaupþingi, líkt og Goldman Sachs International, Eaton Vance International og Landsdowne Partners. Mikið af þessari sölu átti sér hins vegar stað á þessu ári og er hún því ekki öll í tölum Seðlabankans.
Holland og Sviss draga sig út
Af tölunum að dæma hefur eignarhlutur fyrirtækja frá Hollandi minnkað mest, en hann dróst saman um tæpa 43 milljarða króna í fyrra. Á sama tíma hækkaði eignastaða innlendra aðila í Sviss um svipaða upphæð, eða um 46 milljarða króna. Eignarhlutur fyrirtækja frá Sviss dróst svo saman um tæpa 36 milljarða króna og eignarhlutur frá Bandaríkjunum um tæpa 15 milljarða króna.