Eignir lífeyrissjóðanna voru 6.747 milljarðar króna um síðustu áramót, og höfðu aldrei verið meiri. Á meðan að kórónuveirufaraldurinn geisaði, og hlutabréfaverð hækkaði gríðarlega um allan heim, og út árið 2021 jukust eignir sjóðanna um 1.791 milljarð króna, eða um 36 prósent. Hluti þeirrar aukningar var tilkominn vegna inngreiðslna sjóðsfélaga en langstærsti hluti hennar var vegna þess að fjárfestingar, aðallega hlutabréf, hækkuðu í virði. Heildarvísitala skráðra hlutabréfa á Íslandi hækkaði til að mynda um 24,3 prósent 2020 og um 40,2 prósent í fyrra. Íslenskir lífeyrissjóðir eru langstærstu eigendur slíkra bréfa, og eiga um helming þeirra beint eða óbeint.
Hækkunin var drifin áfram af ódýru lánsfé og auknum sparnaði landsmanna, en ekki undirliggjandi frammistöðu félaganna á markaði. Því bar hún öll merki bólu. Margir bjuggust því við leiðréttingu á virði skráðra hlutabréfa.
Á þessu ári hefur virði hlutabréfa enda fallið allstaðar í heiminum samhliða því að Rússar réðust inn í Úkraínu, verðbólga fór að hækka skarpt og seðlabankar heimsins hófu að hækka stýrivexti, sem gerði lánsfé dýrara.
Þessi staða hefur haft neikvæð áhrif á eignir lífeyrissjóðanna.
Fallandi hlutabréfaverð lykilbreyta
Það sem af er þessu ári hefur úrvalsvísitala Kauphallar Íslands, sem er samansett úr gengi bréfa þeirra tíu félaga sem hafa mestan seljanleika, lækkað hratt, eða um 21,2 prósent. Kjarninn greindi frá því í byrjun síðasta mánaðar að hún hefði lækkað um 10,9 prósent í maímánuði einum saman. Það er mesta lækkun innan mánaðar síðan í maí 2010, eða í tólf ár. Lækkun á virði bréfa í Marel, langverðmætasta skráða félagsins á íslenskum hlutabréfamarkaði, hefur leitt þessa þróun.
Í lok maí voru heildareignir íslenskra lífeyrissjóða metnar á 6.421 milljarð króna. Frá áramótum hafa þær lækkað um 326 milljarða króna, eða um 4,8 prósent. Í maí einum saman lækkuðu þær um 141 milljarð króna. Þetta kemur fram í nýjum hagtölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.
Frá áramótum eru það erlendu eignirnar sem hafa lækkað mest. Þær voru 2.246 milljarðar króna þegar landsmenn sprengdu nýja árið inn en 2.087 milljarðar króna í maí. Erlendu eignir lífeyrissjóðanna hafa því lækkað um 159 milljarða króna frá lok síðasta árs.
Fallandi hlutabréfaverð leikur þar lykilhlutverk. Virði erlendra hlutabréfa og hlutdeildarskírteina íslenskra lífeyrissjóða hefur skroppið saman um 165 milljarða króna það sem af er ári.
Farnir að kitla þakið
Alls eru um 67,5 prósent eigna lífeyrissjóðanna innlendar eignir. Hlutfallið hefur hækkað vegna þess verðfalls sem orðið hefur á erlendu eignunum, en auk hlutabréfa samanstendur innlenda eignin að uppistöðu af skuldabréfum og lánum sem sjóðirnir hafa veitt sjóðsfélögum til húsnæðiskaupa.
Um liðin áramót voru erlendu eignirnar orðnar tæplega 36 prósent af heildareignum sjóðanna en það hlutfall hefur nú fallið niður í 32,5 prósent. Þær hafa þó nánast tvöfaldast í krónum talið á rúmum þremur árum.
Samkvæmt gildandi lögum hafa lífeyrissjóðirnir heimild til að vera með 50 prósent eigna sinna erlendis. Þeir hafa lengi kallað eftir að þetta hlutfall verði hækkað þar sem nokkrir sjóðir eru komnir ískyggilega nálægt hámarkinu. Í vor voru tíu lífeyrissjóðir komnir með hlutfall eigna sinna erlendis í um 35 prósent af heildareignum eða meira. Þar af voru þrír sjóðir komnir með hlutfallið yfir 40 prósent og einn, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, var kominn með það nálægt 45 prósent. Sjóðirnir þorðu illa að fara með hlutfallið hærra þar sem skyndileg breyting á gengi krónu eða hækkanir á ákveðnum bréfum geta ýtt þeim yfir löglegt hámark.
Frumvarp sem þótti ekki ganga nógu langt ekki afgreitt fyrir þinglok
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarp fyrr á þessu ári sem rýmka átti heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis.
Þegar drög að frumvarpinu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda stóð til að hlutfallið myndi hækka um eitt prósentustig á ári frá byrjun árs 2024 og til loka 2038. Heimildin yrði þá 65 prósent í lok þess árs.
Í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um drögin kom fram að djúpstæð óánægja væri meðal fulltrúa þeirra sjóða sem væru þegar komnir nálægt núgildandi þaki með hvers hægt ætti að rýmka heimildirnar. Kallað var eftir því að hækka heimildina strax um næstu áramót og hækka hana um tvö til þrjú prósentustig á ári þangað til að 65 prósent markinu yrði náð. Ef farið yrði að ítrustu kröfum sjóðanna myndi það takmark nást í árslok 2027 að óbreyttu.
Í frumvarpinu eins og það var lagt fram á Alþingi var gerð sú breyting að á árinum 2024, 2025 og 2026 yrði heimild sjóðanna í erlendum eignum hækkuð um 1,5 prósentustig á ári og yrði þannig 54,5 prósent í lok síðasta ársins. Eftir það ætti hámarkið að aukast um eitt prósentustig á ári þar til það nær 65 prósentum í byrjun árs 2036. Í frumvarpinu stóð enn fremur að ráðherra ætti í síðasta lagi á árinu 2027 að leggja mat á hvort tilefni sé til að leggja til aðrar breytingar.
Frumvarpið var ekki afgreitt fyrir þinglok. Búist er við því að það verði tekið til afgreiðslu snemma á næsta þingi.