Hagsmunaskráning borgarfulltrúa á fjárhagslegum hagsmunum ná ekki til eignarhluta í félögum sem skráðir eru á maka. Þetta er mat skrifstofu borgarstjórnar. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, leitaði ráðgjafar hjá skrifstofunni þess efnis hvort henni bæri að skrá hlut eiginmanns síns í félögum. Niðurstaðan var að svo er ekki.
Uppfærð hagsmunarskráning Hildar hefur nú verið birt á vef Reykjavíkurborgar og snýr breytingin að því að hún hefur sagt sig úr stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og tekið sæti í stjórn Faxaflóahafna. Með því að færa sig milli stjórna vill Hildur koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra sem gætu tengst kjöri eiginmanns hennar, Jóns Skaftasonar, í stjórn Sýnar.
Jón var kjörinn í stjórn Sýnar 31. ágúst síðastliðinn á hluthafafundi sem var boðaður af kröfu félagsins Gavia Invest, sem keypti í sumar rúmlega 16 prósenta hlut í Sýn, að mestu af félagi í eigu Heiðars Guðjónssonar, sem lét af störfum sem forstjóri Sýnar í lok júlí, sem átti 12,72 prósenta hlut.
Gavia Invest er nýstofnað fjárfestingafélag sem Jón er í forsvari fyrir. Gavia Invest er í eigu þriggja félaga, Capital ehf., E&S 101 ehf. og AB 891 ehf. Eigendur þessara félaga eru, auk Jóns, Reynir Grétarsson, Hákon Stefánsson, Jonathan R. Rubini, Andri Gunnarsson og Mark Kroloff.
Hildur sagði í samtali við Kjarnann í gær að hún væri að vinna í því að uppfæra upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni í hagsmunaskráningu borgarfulltrúa í samstarfi við skrifstofu borgarstjóra. Hún hafi þurft að leita ráðgjafar með nokkur smáatriði.
Bjarni Þóroddsson, verkefnastjóri og staðgengill skrifstofustjóra, segir í samtali við Kjarnann að spurning Hildar hafi snúið að því hvort hún ætti að skrá hlut eiginmanns síns í félögum. Skilningur skrifstofu borgarstjórnar á reglum um hagsmunaskráningu hafi verið að ekki ætti að skrá það.
Í reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar, sem samþykktar voru í mars 2020, er hvergi minnst á skráningu fjárhagslegra hagsmuna sem snúa að eignum eða stjórnarsetu maka. Reglunum er ætlað að veita almenningi upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa hjá Reykjavíkurborg og trúnaðarstörf þeirra utan borgarstjórnar. Reglurnar eiga þannig að auka gagnsæi í störfum borgarstjórnar.
Hildur segir að það sé hins vegar ekkert leyndarmál að eiginmaður hennar eigi hlut í félaginu Gavia Invest, líkt og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. „Það er svo sífellt verkefni stjórnmálamanna að gæta að hæfi sínu, hvort sem er almennt eða við afgreiðslu einstakra mála.“