Rekstrartekjur Sjálfstæðisflokksins á síðasta ári voru 328,4 milljónir króna og drógust saman um tæplega 16 miljónir króna milli ára. Rekstrargjöld voru 217 milljónir króna og rekstrarhagnaður því 111,4 milljónir króna á árinu 2020. Þegar flokkurinn var búinn að greiða af lánum sínum stóðu eftir 85 milljónir króna í hreinann hagnað á síðasta ári, sem er 18 milljónum krónum meira en Sjálfstæðisflokkurinn hagnaðist um árið 2019. Því hagnaðist flokkurinn um 152 milljónir króna á tveimur árum, en árið 2018 tapaði hann 35 milljónum króna.
Langstærsti hluti tekna Sjálfstæðisflokksins, 195,5 milljónir króna, komu úr ríkissjóði. Sveitarfélög greiddu flokknum svo 20 milljónir króna í framlög til viðbótar þannig að alls komu tvær af hverjum þremur krónum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði í tekjur í fyrra úr opinberum sjóðum.
Til viðbótar sótti hann 53,1 milljón króna í framlög og félagsgjöld frá einstaklingum og lögaðilum og hafði 59,6 milljónir króna í aðrar tekjur, sem að uppistöðu eru leigutekjur. Á meðal þeirra lögaðila sem greiddu Sjálfstæðisflokknum hámarksstyrk upp á 550 þúsund krónur eru sjávarútvegsfyrirtæki mest áberandi.
Flokkurinn var með alls 16 þingmenn á síðasta kjörtímabili eftir að hafa fengið 25,3 prósent atkvæða í kosningum 2017. Fyrir vikið var hann sá flokkur sem hafði langflesta þingmenn. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði lítillega, 0,9 prósentustigum, í síðustu kosningum en hélt sínum 16 þingmönnum. Þeim fjölgaði í 17 þegar einn þingmaður Miðflokksins skipti yfir nokkrum dögum eftir kosningarnar.
Búast má við því að framlög til Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili verði svipuð og á því síðasta enda segir atkvæðamagnið til um hversu háa fjárhæð flokkar fá úthlutað úr ríkissjóði.
Fasteignamat hærra en bókfært virði
Sjálfstæðisflokkurinn er langumsvifamesti flokkur landsins. Eignir hans eru metnar á 925 milljónir króna og hækkuðu um 77 milljónir króna milli ára. Dýrmætustu eignir flokksins eru fasteignir, sem metnar eru á 646 milljónir króna. Þær eru bókfærðar á kostnaðarverði, en fasteignamat eigna og lóða er hærra, eða 919 milljónir króna. Þar á meðal er Valhöll, höfuðstöðvar flokksins. Í október var samþykkt beiðni flokksins um að byggja blokk með 47 íbúðum og atvinnuhúsnæði á lóð Valhallar. Auk þess á flokkurinn hlut í tveimur félögum, Þorra ehf. og Íhaldi ehf., Það fyrrnefnda hefur þann tilgang að halda utan um kaup, sölu og rekstur fasteigna, blaðaútgáfu, lánastarfsemi og aðra skylda starfsemi vegna starfs Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Hið síðarnefnda vinnur að húsnæðismálum samtaka eða félaga sjárfsstæðismanna í Fljótsdalshéraði.
Handbært fé Sjálfstæðisflokksins um síðustu áramót var rúmlega 195 milljónir króna og jókst um 89 milljónir króna á síðasta ári.
Skuldir flokksins lækkuðu lítillega á milli ára og voru 449 milljónir króna í lok árs 2020. Óráðstafað eigið fé Sjálfstæðisflokksins var því 476,2 milljónir króna um síðustu áramót.
Framlög til flokka úr ríkissjóði hækkuð gríðarlega
Framlög til stjórnmálaflokka úr ríkissjóði voru hækkuð verulega í byrjun síðasta kjörtímabils. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka á því ári áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að þeir níu stjórnmálaflokkar sem fengu nægjanlegt fylgi í síðustu þingkosningum til að fá úthlutað fjármunum úr ríkissjóði fá samtals 728,2 milljónir króna til að skipta á milli sín á næsta ári.
Það er sama upphæð og flokkarnir fengu samtals í fyrra og sama upphæð og þeir fengu í ár. Raunar gera áætlanir stjórnvalda ráð fyrir því að hún haldist óbreytt út árið 2024. Haldi það munu stjórnmálaflokkar landsins alls hafa fengið 3.641 milljónir króna úr ríkissjóði á fimm ára tímabili.
Til viðbótar við þær greiðslur er kostnaður vegna starfsmanna þingflokka greiddur af Alþingi.
Ársreikningar nú birtir í heild
Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, lögðu svo sameiginlega fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok árs 2018. Það var afgreitt sem lög fyrir þinglok þess árs.
Á meðal breytinga sem það stuðlaði að var að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlag var 400 þúsund krónur en var breytt í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og áður var. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun hætti að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og átti þess í stað að birta ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildi í byrjun árs 2019 þurftu flokkarnir þó ekki að sæta því að ársreikningar þeirra væru birtir í heild á árinu 2019. Þeirri framkvæmd var frestað fram á haustið 2020. Því eru ársreikningarnir nú að birtast í annað sinn í heild sinni.
Sem stendur hefur Ríkisendurskoðun ekki birt ársreikninga eins flokks, Pírata, vegna síðasta árs. Kjarninn mun fjalla um ársreikninga allra þeirra flokka sem skilað hafa ársreikningi á næstu dögum.