Greining Orkustofnunar á birgðastöðu jarðefnaeldsneytis undanfarin ár sýnir að aðgengilegar birgðir í lok hvers árs duga fyrir um 20-50 daga eldsneytisþörf miðað við meðalnotkun. Þá eru dæmi um að birgðir þotueldsneytis hafi farið undir tíu daga.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir sem birt var á vef stjórnarráðsins í dag. Starfshópunum var falið að taka saman stöðu mála og upplýsingar um nauðsynlegar birgðir ýmissa þátta til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum. Skýrsla hópsins, sem unnin er með vísan til stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, hefur verið kynnt í ríkisstjórn og rædd í þjóðaröryggisráði.
Í skýrslu starfshópsins er lagt til grundvallar að eftirtaldar birgðir þurfi að vera tiltækar til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu svo að unnt sé að vernda líf og heilsu almennings, tryggja órofa virkni mikilvægra innviða samfélagsins og þjónustu sem er nauðsynleg svo að unnt sé að sinna brýnustu þörfum íbúa og samfélags við slíkar aðstæður:
- Jarðefnaeldsneyti.
- Lyf, lækningatæki og hlífðarbúnaður.
- Viðhaldshlutir og þjónusta vegna mikilvægra innviða samfélagsins, þ.m.t. rafmagns og fjarskipta, veitna, samgangna, neyðar- og viðbragðsþjónustu og mannvirkja og veitna.
- Hreinlætisvörur og sæfivörur.
Eldsneyti er forsenda matvælaframleiðslu eins og fjölmargrar annarrar starfsemi í samfélaginu og er því nokkuð ítarlega fjallað um þann þátt í skýrslu starfshópsins.
Orkustofnun fylgist með birgðastöðu eldsneytis hér á landi. Söluaðilum og framleiðendum eldsneytis ber að skila reglulega til stofnunarinnar þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að stofnunin geti fylgst með birgðastöðunni.
Eldsneyti sem er í notkun hér á landi er innflutt bensín, flugvélabensín, gasolíur (dísil, skipagasolía, flotadísilolía), þotueldsneyti (steinolía) og lífeldsneyti. Innflutningsaðilar eru seljendur eldsneytisins, t.d. Skeljungur, N1, Atlantsolía, AirBP og Olís. Þessi fyrirtæki hafa einnig umráð yfir birgðarými eldsneytis því hið opinbera rekur ekki birgðarými.
Orkustofnun aflar upplýsinga um jarðefnaeldsneytisbirgðir í landinu og safnar saman í gagnagrunn sinn rauntölum um annars vegar eldsneytissölu olíufélaganna og hins vegar notkun fyrirtækja á Íslandi á eldsneyti sem þau flytja sjálf inn til landsins.
Engin krafa um lágmarksbirgðir
Í íslenskri löggjöf er ekki tilgreindur aðili sem ber ábyrgð á að til séu neyðarbirgðir eldsneytis eða hversu miklar þær skulu vera, segir í skýrslunni. Engin krafa er sett á stjórnvöld eða atvinnulíf að halda uppi lágmarksbirgðum eldsneytis sem nýta mætti í aðstæðum sem takmarka eða útiloka afgreiðslu eldsneytis til Íslands.
„Á meðan Ísland er háð jarðefnaeldsneyti getur skortur á því takmarkað mjög hefðbundna virkni samfélagsins,“ segja skýrsluhöfundar. „Vöruflutningar, samgöngur og atvinnulíf getur lamast ef ekki er til taks orkugjafi til að knýja slíkt áfram.“
Ísland í 52. sæti
Orkustefna Íslands til ársins 2050, skýrsla þjóðaröryggisráðs frá 2021 og aðgerðir sem átakshópur um úrbætur á innviðum skilgreindi í kjölfar fárviðrisins 2019, kalla eftir að sett verði lágmarksviðmið fyrir öryggisbirgðir eldsneytis á Íslandi.
Í skýrslu Alþjóðaorkuráðsins (World Energy Council) frá árinu 2021 er bent á að Ísland er með einkunnina C á sviði orkuöryggis sem kemur aðallega til vegna skorts á neyðarbirgðum eldsneytis. Ísland skorar 56 stig af 100 mögulegum er varðar orkuöryggi og situr í 52. sæti af 100 löndum innan Alþjóðaorkuráðsins, fyrir neðan flest lönd í Evrópu.
Í orkustefnu Íslands er kallað eftir að horft sé til alþjóðlegra viðmiða við setningu lágmarksbirgða. Evrópusambandið og Alþjóðaorkumálastofnunin gera kröfu til aðildarríkja sinna um 90 daga neyðarbirgðir eldsneytis miðað við innflutning nýliðins árs. Eldsneyti til millilandasiglinga er þá undanskilið.
Viðmiðið þarf að vera 90 dagar
„Sem eyland ótengt orkukerfum annarra ríkja, sem er háð innflutningi jarðefnaeldsneytis enn sem komið er“, segir í skýrslunni og telur stýrihópurinn ekki rök fyrir því að viðmið neyðarbirgða eldsneytis sé lægra en það sem er lagt upp með í nágrannaríkjum og víðar. „Ljóst er því að viðmiðum um 90 daga birgðir er ekki náð hérlendis og útfæra þarf aðgerðir til að tryggja slíkar birgðir ef slík viðmið eru sett.“
Vegna aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið voru árið 2011 skoðaðar leiðir til að uppfylla 90 daga birgðaskyldu samkvæmt tilskipun sambandsins en þessi tilskipun, 2009/109EB, fellur utan EES-samningsins og hefur því ekki verið innleidd hér á landi.
Rýmið til staðar
Ljóst er að birgðarýmin sem eru til staðar hér á landi myndu rúma 90 daga birgðir fyrir flestar gerðir eldsneytis að mati skýrsluhöfunda. Samkvæmt grunnspá eldsneytisspár mun raunbirgðarými þotueldsneytis nema 100 prósent af 90 daga birgðarými árið 2043 og vera komið upp í 103 prósent árið 2050.
Sé tekið mið af markmiðum ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 er myndin þó önnur.
Þörf á tölum í rauntíma
Æskilegt væri að koma á rafrænni skráningu innflutningsaðila jarðefnaeldsneytis um bæði innflutning og sölu til mismunandi geira samfélagsins, að mati stýrihópsins. Þannig fengi Orkustofnun upplýsingar um birgðastöðuna í rauntíma.
Verði viðmið um lágmarksbirgðir jarðefnaeldsneytis lögfest hér á landi þarf að skilgreina í hvaða aðstæðum leysa megi út neyðarbirgðir og hver komi að því að taka slíka ákvörðun, segir í skýrslunni.
Stýrihópurinn mælir með að 90 daga lágmarksviðmið olíubirgða verði lögfest hér á landi en að skoða mætti innleiðingu slíkrar kröfu í skrefum.