Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að nú verði gerð ein tilraun í viðbót til þess að tryggja vopnahlé og friðsamlega lausn á borgarastríðinu í Úkraínu. Þetta sagði Merkel rétt í þessu á blaðamannafundi að loknum fundi hennar með Barack Obama Bandaríkjaforseta. Merkel sagði að hún myndi ekki geta lifað með sjálfri sér nema reyna til þrautar að ná fram samkomulagi.
Obama og Merkel ræddu málefni Úkraínu á fundi sínum. Þau sögðust að loknum fundinum vera sammála og samstíga um framhaldið, og lögðu á það áherslu að Bandaríkin og Evrópa væru og yrðu áfram bandamenn.
„Það er ljóst að þeir [Rússar] hafa brotið gegn nánast hverju einasta loforði sem þeir gáfu í Minsk samningnum,“ sagði Obama. Hann sagði að sagan sýndi að ekki mætti standa aðgerðalaus hjá og sjá landamæri Evrópu vera dregin upp á nýtt.
Blaðamannafundurinn er í gangi og hægt er að horfa á hann hér að neðan.