Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar (MS) og Auðhumlu, hyggst láta af störfum 30. júní næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá MS sem send var fjölmiðlum nú síðdegis. Einar greindi stjórn Mjólkursamsölunnar frá ákvörðun sinni í gær, en hann hefur verið forstjóri félagsins frá árinu 2009.
Í tilkynningunni frá MS er haft eftir Einari: „Ég tek þessa ákvörðun vegna breytinga sem verða á högum fjölskyldu minnar í lok júní. Við hjónin ákváðum fyrir um ári síðan að hverfa bæði úr mjög annasömum stjórnunarstörfum hér heima um mitt þetta ár og dvelja og starfa töluvert erlendis næstu misseri. Ég sný mér þar að nýjum verkefnum sem ég hef lengi haft áhuga á að hrinda í framkvæmd, en jafnframt mun ég áfram vinna fyrir hönd Mjólkursamsölunnar að uppbyggingu nýs fyrirtækis með hópi fjárfesta til framleiðslu og sölu á skyri í Bandaríkjunum.“
Einar segir Mjólkursamsölunna hafa fengist við ögrandi viðfangsefni á liðnu ári, meðal annars vegna samkeppnismála, þar sem tekist sé á um túlkun á samspili búvörulaga og samkeppnislaga. „Ég vona að það takist að ljúka þeim málum áður en ég hætti nú í sumar.“
Áfrýjunarnefnd Samkeppnismála felldi nýverið úr gildi 370 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á Mjólkursamsöluna í október vegna alvarlegra samkeppnislagabrota. Áður óþekktur samningur milli MS og Kaupfélags Skagfirðinga, sem MS byggði málflutning sinn á fyrir áfrýjunarnefndinni, leiddi til þess að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var felld úr gildi. Samkeppniseftirlitinu var samhliða falið að rannsaka nánar verðlagningu MS á hrámjólk til annars vegar tengdra fyrirtækja og hins vegar keppinauta samstæðunnar.