Einkabílar verða bannaðir í miðborg Osló árið 2019 til þess að draga úr mengun. Þeir sem ferðast um borgina í almenningssamgöngum, samfloti, fótgangandi og hjólandi verða settir í forgang fram yfir einkabíla. Þetta kemur fram í stefnuyfirlýsingu nýs meirihluta borgarstjórnarinnar, en í fyrsta sinn eru Græningjar í meirihluta borgarstjórnar. Verkamannaflokkurinn og Sósíaliski vinstriflokkurinn eru einnig í meirihlutanum, og Marianne Borgen er nýr borgarstjóri.
Þetta er í fyrsta sinn sem til stendur að gera miðborg evrópskrar höfuðborgar bíllausa með þessum hætti, en gripið hefur verið til tímabundinna lokanna sums staðar, eins og í París. Meirihlutinn ætlar sér líka að helminga útblástur gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020.
Með því að loka fyrir bílaumferð verður miðborgin betri fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, segir meirihlutinn. Til stendur að leggja að minnsta kosti 60 kílómetra af hjólastígum og göngustígum í miðborginni fyrir árið 2019 og fjárfesta verulega í almenningssamgöngum. Strætisvagnar og sporvagnar munu keyra um miðborgina og einkabílar fatlaðs fólks og vörubílar sem flytja vörur til verslana munu fá að keyra um miðborgina áfram. Á næstu árum verða gerðar tilraunir með lokanir fyrir einkabíla auk þess sem meirihlutinn segist ætla að kynna sér reynslu annarra borga.
„Við erum ánægð með að hafa komið okkur saman um sögulega sterka stefnu í loftslagsmálum. Þetta mun setja Osló í forystu grænu hreyfingarinnar,“ segir Lan Marie Nguyen Berg, leiðtogi Græningja, við norska ríkisútvarpið NRK.
Minnihlutinn í borginni hefur strax gagnrýnt þessi áform og leiðtogi Framfaraflokksins í Osló, Carl I. Hagen, segir meirihlutann byggja á óraunsærri draumsýn. „Það sem litla Osló gerir hefur enga þýðingu fyrir umhverfið,“ segir hann við NRK. Þá hafa verslunareigendur í miðborginni lýst yfir ótta við áformin, en eru reiðubúin til að ræða við meirihlutann um málið.