Alls segjast 66 prósent landsmanna, tveir af hverjum þremur, vera óánægðir með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi. Þar af segjast 38 prósent vera mjög óánægð með hana.
Tæpur fimmtungur, 19 prósent aðspurðra, segist ekki hafa sterka skoðun á útfærslunni en einungis 14 prósent eru ánægð með hana.
Þetta kemur fram í könnun sem MMR vann fyrir Öldu - félag um sjálfbærni og lýðræði, daganna 8. til 14. júlí síðastliðinn. Um var að ræða netkönnun sem 945 manns svöruðu. Úrtakið voru Íslendingar á aldrinum 18 ára og eldri og voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR, sem telur liðlega 18 þúsund manns sem valdir voru með með tilviljunarúrtaki úr þjóðskrá.
Spurningin sem þátttakendur voru fengnir til að svara var eftirfarandi: Hversu ánægð(ur) eða (óánægður) ertu með núverandi útfærslu á kvótakerfi í sjávarútvegi?
Sjálfstæðismenn einu sem eru ánægðir
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru þeir einu sem eru ánægðari með útfærslu kvótakerfisins en óánægðari. Alls segjast 42 prósent þeirra vera ánægðir með hana en 25 prósent eru óánægð.
Andstaðan við núverandi útfærslu kvótakerfis í sjávarútvegi er mikil á meðal allra stjórnarandstöðuflokka. Mest er hún hjá kjósendum Sósíalistaflokksins (94 prósent) og kjósendum Píratar (93 prósent). Kjósendur Samfylkingar fylgja þar á eftir (88 prósent), svo Flokks fólksins (79 prósent) og Viðreisnar (78 prósent). Hjá andstöðuflokkunum er óánægjan minnst hjá kjósendum Miðflokks, en mælist samt sem áður 71 prósent.
Unga fólkið óánægðast
Munur er á óánægju milli aldurshópa. Hún mælist mest hjá ungi fólki, innan aldurshópsins 18-29 ára, þar sem 74 prósent aðspurðra sögðust óánægð með núverandi útfærslu kvótakerfisins og einungis átta prósent sögðust ánægð.
Ekki er mikil munur á andstöðunni eftir búsetu, en 69 prósent íbúa höfuðborgarsvæðisins er óánægð með kerfið og 62 prósent þeirra sem búa á utan þess. Óánægjan eykst með hærra menntunarstigi en er minnst hjá þeim sem hafa hæstar tekjur.
Mest ánægja með núverandi útfærslu kvótakerfisins mælist í hópi stjórnenda og æðstu embættismanna, en 25 prósent þeirra segjast ánægðir með núverandi útfærslu kerfisins.
Samherjar með sterka stöðu
Mikil samþjöppun hefur orðið innan kvótakerfisins á undanförnum árum. Miðað við síðasta birta lista Fiskistofu um þær aflaheimildir sem hvert fyrirtæki heldur á þá er Síldarvinnslan, ásamt dótturfélögum, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 7,7 prósent hans. Miðað við það sem var greitt fyrir aflaheimildir Bergs ætti virði þess kvóta að vera um 92 milljarðar króna. Aflaheimildir Síldarvinnslunnar eru bókfærðar á um 30 milljarða króna. Tveir stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og Kjálkanes.
Næst stærsta fyrirtækið á listanum yfir þær útgerðir sem erum með mestu aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu er einmitt Samherji.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,3 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,7 prósent kvótans. Samanlagt heldur Samherji því á níu prósent úthlutaðra veiðiheimilda.
Gjögur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálkanes, heldur svo á 2,3 prósent af öllum úthlutuðum aflaheimildum, sem er 27,5 milljarða króna virði.
Samherji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Samherja, er með næst mesta aflahlutdeild í íslenskri efnahagslögsögu allra sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi, eða 7,3 prósent. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er líka í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,7 prósent kvótans.
Samanlagt virði þessa kvóta sem Samherji heldur á, miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir, er um 107,6 milljarðar króna.
Þessir aðilar: Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, sem Samkeppniseftirlitið telur mögulegt að séu tengdir, halda því samtals á 19 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Markaðsvirði hans er um 227 milljarðar króna.
Nokkrar blokkir fyrirferðamiklar
Brim, sem er skráð á markað, er sú útgerð sem heldur beint á mestum kvóta, eða 10,41 prósent hans. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,57 prósent af öllum aflaheimildum. Útgerðarfélag Reykjavíkur er að uppistöðu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,43 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög halda því á 15,51 prósent af úthlutuðum kvóta. Markaðsvirði hans er um 184,1 milljarðar króna miðað við síðustu viðskipti með kvóta.
Kaupfélag Skagfirðinga á FISK Seafood, sem heldur á 5,51 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með 4,5 prósent heildaraflahlutdeild. Þá á Vinnslustöðin 48 prósent hlut í útgerðarfélaginu Huginn í Vestmannaeyjum, sem heldur á 0,8 prósent af útgefnum kvóta.
FISK á til viðbótar allt hlutafé í Soffanías Cecilsson, en það fyrirtæki heldur á um 0,27 prósent kvótans. Samtals nemur heildarkvóti þessara þriggja rétt yfir ellefu prósent, og er því undir 12 prósent markinu þótt þeir yrðu skilgreindir með öðrum hætti.
Markaðsvirði þess kvóta, miðað við síðustu gerðu viðskipti, er um 132,4 milljarðar króna.
Þessar þrjár blokkir, sú sem hverfist í kringum Samherja, sú sem hverfist í kringum Brim og sú sem hverfist í kringum útgerð Kaupfélags Skagfirðinga, heldur því samtals á 45,6 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Samanlagt markaðsvirði hans er um 544,8 milljarðar króna.
Alls er 67,4 prósent alls úthlutaðs afla í höndum 15 útgerða sem margar hverjar tengjast innbyrðis.