Mynd: 123rf

Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans

Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni á 29 milljarða króna í gegnum hlutafjárútboð. Ekki er langt síðan að hlutur í stærstu útgerðarsamstæðu landsins sem er tug milljarða króna virði var færð milli kynslóða.

Í októ­ber 2020 var greint frá því að útgerð­ar­fé­lagið Berg­ur-Hug­inn, að öllu leyti í eigu Síld­ar­vinnsl­unn­ar, hefði keypt útgerð­ar­fé­lagið Berg ehf. í Vest­manna­eyj­um. Þegar kaupin voru opin­beruð var ekki sagt frá því hvert kaup­verðið var. Í árs­reikn­ingi Síld­ar­vinnsl­unnar, sem birtur hefur verið á heima­síðu félags­ins í aðdrag­anda skrán­ingar hennar á íslenskan hluta­bréfa­mark­að, er kaup­verðið hins vegar til­greint. Það var tæpir 4,9 millj­arðar króna.

Berg hafði 1.514 þorskígildistonn til ráð­stöf­un­ar, eða um 0,36 pró­sent af heild­ar­kvóta yfir­stand­andi fisk­veiði­árs. Sam­kvæmt síð­asta birta árs­reikn­ingi Bergs var virði fasta­fjár­muna félags­ins að frá­dregnum skuldum um 600 millj­ónir króna. Ef miðað er við að dótt­ur­fé­lag Síld­ar­vinnsl­unnar hafi greitt þá krónu­tölu fyrir fasta­fjár­mun­ina, sem eru skip miðað við verð­trygg­inga­verð­mæti, þá er hefur félagið greitt um 4,3 millj­arða króna fyrir afla­heim­ild­ir. 

Miðað við að það mark­aðs­verð hafi verið greitt fyrir 0,36 pró­sent af úthlut­uðum kvóta ætti allur úthlut­aður kvóta að kosta um 1.195 millj­arða króna, eða um 41 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu á árinu 2021. 

Frjáls fram­sal og veð­setn­ing kvóta

Kvóta­kerf­inu var komið á með lögum árið 1983. Við úthlutun kvóta var miðað við afla­reynslu síð­ustu þriggja ára og hann afhentur án end­ur­gjalds. Fram­sal á kvóta var síðan gefið frjálst sem gerði það að verkum að við­skipti fóru að vera með þessa vöru sem var í upp­hafi lánuð án greiðslu.

Auglýsing

Sumir útgerð­ar­menn seldu þá afla­heim­ild­irnar sem þeim hafði verið úthlutað frítt, meðal ann­ars vegna þess að þeir voru komnir af vinnu­aldri. Aðrir sáu sér ein­fald­lega leik á borði þegar kvót­inn varð skyndi­lega orð­inn verð­mætur og inn­leystu hagnað og fjár­festu í öðrum atvinnu­grein­um. Enn aðrir seldu kvóta vegna hjóna­skiln­að­ar.  Og allt þar á milli.

Árið 1997 var svo gefin heim­ild til að veð­setja afla­heim­ildir fyrir lán­um, sem voru notuð til að kaupa upp kvóta eða eftir atvikum aðrar eign­ir. 

Fyrir vikið hækk­uðu afla­heim­ild­irnar hratt í verði og mjög margir urðu mjög rík­ir. 

Þessi staða leiddi til þess að flest fólk sem byrj­aði með tvær hendur tómar hefur ekki lengur tök á að kaupa sér nokkra tugi tonna af kvóta og bát með. Það er ekki á færi ann­arra en sterk­efn­aðra. Auk þess er stærð­ar­hag­kvæmni í grein­inni orðin svo ráð­andi þáttur að erfitt er að „keppa“ við stærri fyr­ir­tækin þegar kemur að verðum á mark­aði og stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin eiga heilu virð­is­keðj­unnar í heild sinn­i. 

Í stað þess að það verði mikil end­ur­nýjun eða nýliðun í grein­inni þá selja yfir­leitt eldri útgerð­ar­menn, hvort sem er í smá­út­gerðum eða stærri, sem eiga litla kvóta­pakka, til stóru útgerð­ar­fyr­ir­tækj­anna sem sjá sér hag í að bæta við kvóta og hag­ræða enn frekar í rekstri, enda hafa þau yfir að ráða tækjum og tólum til að nýta kvót­ann bet­ur, með hag­kvæmri vinnslu. 

Og frek­ari sam­þjöppun verð­ur. 

Lánsfé hafði meiri áhrif á verð kvóta en raunverulegt verðmæti

Í grein eftir Kára Fannar Sævarsson mannfræðing, sem birtist í Kjarnanum sumarið 2018, kom fram að þegar „Seðla­bank­inn var­aði við því árið 2000 að veð í kvóta væru of há til að standa undir sér var þorsk­sí­gildið um 800 krónur á kíló. Þegar bank­arnir féllu var það komið upp í 4400 krón­ur. Það var mun meira en nokkur útgerð eða fjár­festir gat séð sem hag­kvæma fjár­fest­ingu á kvóta. Árin 2007 og 2008 var heild­ar­virði kvóta á Íslandi um tvö þús­und millj­arðar eða fimm sinnum meira en árlegur hagn­aður íslenska sjáv­ar­út­vegs­ins.“

Þegar hrunið skall á lækkaði virði kvótans um helming og árið 2012 var þorskígildið komið niður í um 2.000 krónur. Þetta gerðist þrátt fyrir gengisfall sem hefði átt að auka virði kvótans í krónum talið frekar en hitt. Í grein Kára Fannars sagði að af þessu mætti „draga þá ályktun að fram­boð á lánsfé frá bönk­unum hafi haft meiri áhrif á verð á afla­hlut­deildum heldur en raun­veru­legt verð­mæti þeirra.“

Í árs­lok 2008 var eigið fé íslensks sjáv­ar­út­vegs sem heildar nei­kvætt um 80 millj­arða króna, aðal­lega vegna þess atvinnu­veg­ur­inn hafði tekið lán í erlendum gjald­miðlum í stórum stíl, með veði í kvót­an­um. Heild­ar­skuldir sjáv­ar­út­veg­ar­ins gagn­vart bönk­unum stóðu í 560 millj­örðum króna á þeim tíma. 

Veð­settur kvóti var samt ekki inn­kall­aður heldur samið við flest sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækin um aðlögun á lán­um, vöxtum og afborg­un­um. Svokölluð sátta­nefnd sem skipuð var eftir hrunið lagð­ist líka gegn því að ríkið inn­kall­aði kvót­ann þar sem að það myndi setja lán sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja hjá bönkum í upp­nám, sem myndi setja rek­star­for­sendur end­ur­reistu bank­anna í upp­nám.

Auglýsing

Hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna vænk­að­ist hratt eftir þetta. Frá hruni og út árið 2018 batn­aði eig­in­fjár­staða þeirra, sam­kvæmt Sjáv­ar­út­vegs­gagna­grunni Deloitte, um 376 millj­arða króna. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 103,2 millj­arða króna til eig­enda sinna í arð­greiðsl­ur. Hagur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna hefur því vænkast um að minnsta kosti 479,2 millj­arða króna frá hruni.

Sam­herjar halda á miklu

Miðað við síð­asta birta lista Fiski­stofu um þær afla­heim­ildir sem hvert fyr­ir­tæki heldur á þá er Síld­ar­vinnslan, ásamt dótt­ur­fé­lög­um, í þriðja sæti yfir þær útgerðir sem ráða yfir mestum kvóta með 7,7 pró­sent hans. Miðað við það sem var greitt fyrir afla­heim­ildir Bergs ætti virði þess kvóta að vera um 92 millj­arðar króna. Afla­heim­ildir Síld­ar­vinnsl­unnar eru bók­færðar á um 30 millj­arða króna. Tveir stærstu eig­endur Síld­ar­vinnsl­unnar eru Sam­herji og Kjálka­nes.

Næst stærsta fyr­ir­tækið á list­anum yfir þær útgerðir sem erum með mestu afla­hlut­deild í íslenskri efna­hags­lög­sögu er einmitt Sam­herj­i. 

Sam­herji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Sam­herja, er með næst mesta afla­hlut­­­deild í íslenskri efna­hags­lög­­sögu allra sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækja á Íslandi, eða 7,3 pró­­­sent. ­Út­­­­­gerð­­­­­­­ar­­­­­­­fé­lag Akur­eyr­­­­­­­ar, sem er líka í 100 pró­­­­­­­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,7 pró­­­­­­­sent kvót­ans. Sam­an­lagt heldur Sam­herji því á níu pró­sent úthlut­aðra veiði­heim­ilda. 

Losa um tugi milljarða og færa eignir til næstu kynslóðar

Ef verð á hlutum í Síldarvinnslunni, sem seldir verða í hlutafjárútboði sem hest næstkomandi mánudag, verður í hærra enda verðbils og eftirspurn eftir hlutum kallar á stækkun á útboðinu, munu þeir hluthafar sem selja fá alls tæplega 29 milljarða króna í sinn hlut.

Samherji hf., stærsti eigandi Síldarvinnslunnar, myndi fá 11,8 milljarða króna af þeirri upphæð í sinn hlut og Kjálkanes, félag í eigu Björgólfs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, fá 11,8 milljarða króna sömuleiðis.

Eignarhaldsfélagið Snæfugl, sem er meðal annars í eigu Samherja og Björgólfs, myndi selja fyrir tæpan milljarð króna og Síldarvinnslan myndi fá um 720 milljónir króna fyrir þá eigin hluti hennar sem til stendur að selja.

Stærstu eigendur Samherja, Þorstein Már, Helga S. Guðmundsdóttir fyrrverandi eiginkona hans, og Kristján Vilhelmsson, greindu frá því í maí í fyrra að þeir hefðu framselt hlutabréf í innlendri starfsemi sjávarútvegsrisans til barna sinna.

Framsalið er umfangsmesti þekkti arfur sem greiddur hefur verið hérlendis, en hluti af tilfærslunni var sala. Um er að ræða 86,5 prósent hlut í Samherja hf., öðrum helmingi Samherjasamstæðunnar.

Eftir þá tilfærslu eru stærstu hlut­hafar Samherja hf. Bald­vin og Katla Þor­steins­börn, sem munu fara sam­an­lagt með um 43,0 pró­sent hlut í Sam­herja og Dagný Linda, Hall­dór Örn, Krist­ján Bjarni og Katrín Krist­jáns­börn, sem munu fara sam­an­lagt með um 41,5 pró­sent hluta­fjár.

Í tilkynningu á vef Samherja sagði að með þessum hætti „vilja stofn­endur Sam­herja treysta og við­halda þeim mik­il­vægu fjöl­skyldu­tengslum sem félagið hefur ætíð byggst á og hafa verið horn­steinn í rekstr­in­um.“

Gjög­ur, sem er í eigu sömu aðila og eiga Kjálka­nes, heldur svo á 2,3 pró­sent af öllum úthlut­uðum afla­heim­ild­um, sem er 27,5 millj­arða króna virði.

Sam­herji Ísland ehf., félag að öllu leyti í eigu Sam­herja, er með næst mesta afla­hlut­­­deild í íslenskri efna­hags­lög­­sögu allra sjá­v­­­ar­út­­­vegs­­fyr­ir­tækja á Íslandi, eða 7,3 pró­­­sent. ­Út­­­­­gerð­­­­­­­ar­­­­­­­fé­lag Akur­eyr­­­­­­­ar, sem er líka í 100 pró­­­­­­­sent eigu Sam­herja, heldur svo á 1,7 pró­­­­­­­sent kvót­ans. 

Sam­an­lagt virði þessa kvóta sem Sam­herji heldur á, miðað við síð­ustu gerðu við­skipti með afla­heim­ild­ir, er því um 107,6 millj­arðar króna.

Þessir aðil­ar: Síld­ar­vinnslan, Sam­herji og Gjög­ur, sem Sam­keppn­is­eft­ir­litið telur mögu­legt að séu tengd­ir, halda því sam­tals á 19 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. Mark­aðsvirði hans er um 227 millj­arðar króna.

Nokkrar blokkir fyr­ir­ferða­miklar

Brim, sem er skráð á mark­að, er sú útgerð sem heldur beint á mestum kvóta, eða 10,41 pró­sent hans. Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­vík­­­ur, sem á 43,97 pró­­sent hlut í Brim beint og í gegnum dótt­­ur­­fé­lag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,57 pró­­sent af öllum afla­heim­ild­­um. Útgerð­­ar­­fé­lag Reykja­víkur er að upp­i­­­stöðu í eigu Guð­­mundar Krist­jáns­­son­­ar, for­­stjóra Brims.

Auglýsing

Til við­­bótar heldur útgerð­­ar­­fé­lagið Ögur­vík, að fullu í eigu Brims, á 1,43 pró­­sent af úthlut­uðum kvóta. Þessi þrjú félög halda því á 15,51 pró­sent af úthlut­uðum kvóta. Mark­aðsvirði hans er um 184,1 millj­arðar króna miðað við síð­ustu við­skipti með kvóta.

Kaup­­­­­fé­lag Skag­­­­­firð­inga á FISK Seafood, sem heldur á 5,51 pró­­­­­sent heild­­­­­ar­kvót­ans. FISK á 32,9 pró­­­­­sent í Vinnslu­­­­­stöð­inni í Vest­­­­­manna­eyjum sem er með 4,5 pró­­sent heild­­­­­ar­afla­hlut­­­­­deild. Þá á Vinnslu­­stöðin 48 pró­­sent hlut í útgerð­­ar­­fé­lag­inu Hug­inn í Vest­­manna­eyj­um, sem heldur á 0,8 pró­­sent af útgefnum kvóta.

FISK á til við­­bótar allt hlutafé í Soff­an­­­­­ías Cecils­­­­­son, en það fyr­ir­tæki heldur á um 0,27 pró­­­­­sent kvót­ans. Sam­tals nemur heild­­­­­ar­kvóti þess­­­­­ara þriggja rétt yfir ell­efu pró­­sent, og er því undir 12 pró­­­­­sent mark­inu þótt þeir yrðu skil­­­­­greindir með öðrum hætti.

Mark­aðsvirði þess kvóta, miðað við síð­ustu gerðu við­skipti, er um 132,4 millj­arðar króna.

Þessar þrjár blokkir, sú sem hverf­ist í kringum Sam­herja, sú sem hverf­ist í kringum Brim og sú sem hverf­ist í kringum útgerð Kaup­fé­lags Skag­firð­inga, heldur því sam­tals á 45,6 pró­sent af öllum úthlut­uðum kvóta. Sam­an­lagt mark­aðsvirði hans er um 544,8 millj­arðar króna. 

Alls er 67,4 pró­sent alls úthlut­aðs afla í höndum 15 útgerða sem margar hverjar tengj­ast inn­byrð­is.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar