Eftir að COVID-19 faraldurinn skall í byrjun síðasta árs og fram á síðasta haust gaf utanríkisráðuneytið út á þriðja þúsund svokallaðra liprunarbréfa, sem oftast eru gefin út til þess að greiða götu íslenskra ríkisborgarara erlendis. Utanríkisráðuneytið segist einungis hafa afturkallað eitt þessara bréfa, samkvæmt svari til Kjarnans.
Það var liprunarbréf sem Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður, fyrrverandi menningarráðunautur utanríkisráðuneytisins og núverandi þingframbjóðandi Flokks fólksins, fékk útgefið hjá ráðuneytinu um miðjan mars í fyrra, fyrir barn vinar síns, sem hann sagði reyndar vera barn í fjölskyldunni.
Útgefið liprunarbréf var orðrétt í samræmi við tillögu að slíku bréfi sem Jakob Frímann sendi utanríkisráðuneytinu. Ráðuneytið hefur síðan ítrekað beðið móðurfjölskyldu barnsins afsökunar á því að hafa ekki sannreynt að ferðalag barnsins úr landi til föður síns þann 19. mars 2020, sem Jakob Frímann vísaði til í bréfi sínu, væri með fullu samþykki móðurinnar, sem er forsjárforeldri barnsins.
Í svari frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans segir að liprunarbréf séu jafnan lýsing á tilteknum staðreyndum, svo sem lýsingu á rétti til að ferðast um tiltekið svæði, heiti á tilteknum skilríkjum eða lýsingu á íslenskri lagareglu, auk annars.
„Tilefni þeirra getur verið mismunandi en mjög reyndi á útgáfu liprunarbréfa þegar heimsfaraldurinn hófst í mars 2020 og landamæri fjölmargra ríkja lokuðust með skömmum fyrirvara. Liprunarbréfin hafa í sjálfu sér ekkert lagagildi heldur eru þau gefin út í upplýsingar-og liprunarskyni. Tilgangur þeirra er fyrst og fremst að greiða götu borgaranna,“ segir í svari ráðuneytisins.
„Frá upphafi faraldursins og þar til fram á haust 2020 var á þriðja þúsund liprunarbréfa gefin út en þá var útgáfu þeirra að mestu hætt vegna breytinga á verklagi og breyttrar stöðu faraldursins. Aðeins í einu tilviki hefur liprunarbréf verið afturkallað,“ segir einnig í svari ráðuneytisins, sem hefur þurft að biðja móðurfjölskyldu barnsins sem um ræðir afsökunar á því að hafa orðið við bón Jakobs Frímanns um útgáfu þessa tiltekna liprunarbréfs.
Jakob segist bara hafa verið að hjálpa í góðri trú
DV sagði frá þessu liprunarbréfi fyrr í þessum mánuði og því að móðurfjölskylda barnsins væri afar ósátt við aðkomu Jakobs Frímanns að málinu og hefði óskað eftir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tæki málið til skoðunar, þá undir þeim formerkjum að þingframbjóðandinn hefði beitt blekkingum til þess að hjálpa til við að koma barni úr landi.
Í yfirlýsingu frá Jakobi vegna fréttarinnar segir að hann hafi verið að bregðast við beiðni um aðstoð frá nánum vinum á miklum óvissutímum.
„Barn sem er fórnarlamb harðvítugrar forræðisdeilu var með skriflega heimild frá lögfræðingi móður sinnar um að mega heimsækja föður sinn í fjarlægu landi, kominn með farmiða í hendur og tilbúinn til farar þegar í ljós kom að þær aðstæður kynnu að skapast að honum yrði vísað aftur heim við lendingu eftir 5 tíma flug. Í ljósi þessa var mér ljúft og skylt að aðstoða við útvegun liprunarbréfs er tryggja myndi að tekið yrði á móti drengnum á áfangastað á Spáni og honum hjálpað að ná langþráðum endurfundum við föður sinn,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Jakobs Frímanns.
Þar sagði einnig að ekki fengist séð að „nokkur glæpur hafi verið hér framinn, því síður neins konar „skjalafals“, hvað þá að nokkur skaði hafi hlotist af.“
Ritstjórar DV segjast aldrei hafa upplifað annað eins áreiti
Síðdegis í gær birtist yfirlýsing á vef DV frá Birni Þorfinnssyni ritstjóra blaðsins og Erlu Hlynsdóttur aðstoðarritstjóra, þar sem þau segja að áköf herferð hafi verið rekin gegn því að fréttin um þetta liprunarbréf og aðkomu Jakobs Frímanns að því færi í lofið. „Fordæmalaust með öllu,“ segir fjölmiðlafólkið í yfirlýsingu sinni.
„Síðustu daga höfum við íhugað málið og komumst við bæði að þeirri niðurstöðu að við gætum ekki látið málið kyrrt liggja. Því miður færist það sífellt í vöxt að blaðamenn verði fyrir grófu áreiti við sín störf. Við teljum því mikilvægt að stíga niður fæti og það verði öllum ljóst sem að ætla sér að beita slíkum aðferðum að þeir geta ekki gert það í skjóli skugga heldur þurfa að sætta sig við það að slíkt verði hér eftir dregið fram í dagsljósið,“ segir í yfirlýsingunni, en Björn Þorfinnsson ritstjóri miðilsins hafði áður, eins og Kjarninn sagði frá, gagnrýnt fulltrúa Flokks fólksins harðlega fyrir að tjá sig um fréttaflutning DV.
Í yfirlýsingu ritstjóra segir einnig að það sé „ekkert launungarmál“ að gögnin hafi komist í hendur DV sökum þess að „fjölskyldu móður barnsins ofbauð sú tilhugsun að Jakob Frímann væri að sækjast eftir þingsæti með Flokki fólksins.“
„Erla reiknaði með því að þegar hún hringdi í Jakob Frímann myndi einfaldlega segja að hann hefði verið helst til fljótur á sér, ekki hafa verið með allar staðreyndir málsins á hreinu og bæðist velvirðingar á mistökum sínum. En annað kom á daginn – í fyrsta símtali Erlu við Jakob Frímann sagðist hann vera upptekinn á fundi en vildi gjarnan vita erindið. Erla kvaðst myndi hringja aftur eftir klukkustund.
Nokkrum mínútum síðar byrjuðu símar okkar beggja að hringja frá aðilum sem nátengdir eru Jakobi Frímanni. Í kjölfarið hófst tveggja sólarhringa áreitni í garð okkar beggja, Björns en þó aðallega Erlu, þar sem markmiðið var að koma í veg fyrir að þessi frétt myndi nokkurn tímann birtast. Okkur voru gerðar upp annarlegar hvatir, reynt að láta okkur fá samviskubit yfir því að vera að eyðileggja pólitískan feril Jakobs og ekki síður þau mikilvægu málefni sem hann væri að berjast fyrir. Við vorum beinlínis beitt andlegu ofbeldi og okkur hótað því að birting fréttarinnar myndi hafa afleiðingar fyrir okkur persónulega,“ segir í yfirlýsingunni á vef DV.
Þar segir einnig að á bak við tjöldin hafi „önnur herferð“ farið í gang þar sem „æðstu stjórnendur útgáfufyrirtækisins voru beittir bæði blekkingum og þrýstingi til að koma í veg fyrir birtingu“ fréttarinnar.
Alvarlegast, segja ritstjóri og aðstoðarritstjóri DV, var þó að barnið, sem statt var erlendis hjá föður sínum hafi verið „látið hringja ítrekað í Erlu auk þess sem bréf í nafni þess voru send á stjórnendur fyrirtækisins,“ þ.e. Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins, Hringbrautar og DV. Ritstjórar DV segjast hafa hafa tilkynnt málið til barnaverndaryfirvalda.
Jakob Frímann brást við yfirlýsingu DV í gærkvöldi, með annarri yfirlýsingu á sama vef, þar sem hann meðal annars segir að hann hafi óskað eftir því við móðurfjölskyldu barnsins að fá að ræða málið og „sitja fyrir svörum í eigin persónu strax að afloknum kosningum, 25. september.“ Þessu segir Jakob Frímann að hafi verið hafnað.
„Að barnið kysi sjálft að tjá sig á samfélagsmiðlum og víðar, statt í útlöndum, var mér með öllu ókunnugt um fyrr en í ljós kom,“ segir auk annars í yfirlýsingu Jakobs.
Ritstjórar DV segjast standa við sína fyrri yfirlýsingu vegna málsins.