Þingmenn fjögurra stjórnarandstöðuflokka voru harðorðir í garð ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar einungis tveir mættu í óundirbúinn fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun, þau Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Fjölmargir þingmenn lögðu orð í belg og gerðu athugasemdir við fundarstjórn forseta Alþingis Birgis Ármannssonar.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir þingmaður Pírata var meðal þeirra stjórnarandstöðuþingmanna sem gagnrýndi fjarveru ráðherranna og sagði að möguleikar þingmanna til að beina óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra væri gríðarlega mikilvægur þáttur í aðhaldi þingsins að framkvæmdarvaldinu og upplýsingagjöf stjórnvalda til þingsins.
Lýsti yfir miklum vonbrigðum
„Kveðið er á um þetta í lögum um þingsköp Alþingis þar sem segir að að jafnaði skuli ekki vera færri en þrír ráðherrar sem sitja fyrir svörum. Í dag eru einungis tveir mættir. Það vekur sérstaklega athygli vegna þess hversu margir ráðherrar eru orðnir. Þessi ríkisstjórn hefur séð ástæðu til að fjölga ráðherrum en greinilega ekki í þeim tilgangi að auka fyrirsvar þeirra gagnvart þinginu.
Ég lýsi því yfir miklum vonbrigðum með að hér í dag skuli einungis mæta tveir ráðherrar og það væri raunar ágætt að fá frekari skýringar á því en bara þá að það hafi ekki náðst. Það er hægt að sýna ýmsum hlutum skilning en þegar af svo mörgum einstaklingum er að taka er erfitt að ímynda sér hvað veldur því að einungis tveir af tólf sjá sér fært að koma og tala við þingið. Þá vil ég óska sérstaklega eftir því að innanríkisráðherra sjái sér fært að koma og tala við okkur hérna, að minnsta kosti næst, helst í dag,“ sagði Arndís Anna.
Hlýtur að vera skýring á þessu
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins tók undir gagnrýnina.
„Það er svolítið skrýtið að það skuli bara tveir ráðherrar vera mættir, og það tveir með ný heiti; innviðaráðherra og vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ef ég man rétt nafnið á þeim. Og ég spyr: Eru hinir kannski farnir í frí? Það væri ágætt að upplýsa hvers vegna í ósköpunum hingað eru bara tveir komnir. Það eru 12 ráðherrar og ég myndi telja lágmark að 40 til 50 prósent af þeim myndu skila sér hingað inn í umræðuna. Það hlýtur að vera skýring á þessu og ég spyr bara: Er skýringin sú að hinir séu komnir í frí?“ spurði hann.
Einungis tveir ráðherrar áttu kost á að mæta
Birgir Ármannsson forseti Alþingis svaraði þingmönnum og sagði að aðstæður hefðu verið með þeim hætti að ekki áttu nema tveir ráðherrar kost á að koma til fundar í dag en gengið hefði verið eftir því að fleiri kæmust. Á hinn bóginn hefðu aðstæður verið með þeim hætti að ekki var hægt að verða við því.
Hann sagðist enn fremur vilja geta þess að möguleikar þingmanna til að spyrja ráðherra væru auðvitað með ýmsum hætti. „Það eru óundirbúnar fyrirspurnir, sem gegna vissulega mikilvægu hlutverki. Sama er með skriflegar fyrirspurnir til munnlegs svars, sem þingmenn eiga kost á að leggja fram, og eins skriflegar fyrirspurnir til skriflegs svars. En að sjálfsögðu verður athugasemdum háttvirtra þingmanna komið á framfæri.“
Sagði hann jafnframt á það væru forsætisráðherra og forsætisráðuneytið sem skipulegðu hvaða ráðherrar kæmu til svara í fyrirspurnatímum. „En þegar fyrirsjáanlegt var að það yrði fáliðað var óskað eftir því að reynt yrði að tryggja nærveru fleiri ráðherra, sem tókst ekki. Forseti hefur ekki sjálfur skýringar á því hvernig á því stendur, en eins og forseti gat um áðan verður þeim athugasemdum sem hér hafa komið fram komið á framfæri,“ sagði Birgir.
Forseti eigi að upplýsa þingið um ástæður fjarveru ráðherra
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar sagðist taka undir með þingmönnum sem tekið höfðu til máls á undan en þó skyldi virða það við þá ráðherra sem þó væru mættir.
„Ég er líka þakklátur hæstvirtum forseta fyrir að útskýra fyrir okkur með hvaða hætti við getum náð eyrum ráðherrans að öðru jöfnu, en hér kom samt fram áðan að að jafnaði eiga að vera þrír til staðar. Nú var hægt að lesa það úr orðum forseta að hann hafi grennslast fyrir um ástæðurnar fyrir því að það var svona fáliðað. Þá finnst mér A, að hann eigi að upplýsa okkur um ástæðurnar, og B, að hann sem forseti alls þingsins leggist á árar með okkur og tryggi að við höfum þá alla vega aðgang að ráðherrum sem okkur ber,“ sagði Logi.
Ráðherrar gegna ákveðnu hlutverki á þingi
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar benti á að stutt væri síðan þingflokkur Viðreisnar sendi forseta þingsins sérstakt bréf til að óska eftir því að hægt væri að eiga samtal við heilbrigðisráðherra og við fjármálaráðherra í hvert skipti sem ríkisstjórnin framlengir sóttvarnaaðgerðir til að eiga samtal um það hvaða efnahagsaðgerðir ættu að fylgja.
„Ég býst fastlega við því að við þeirri ósk verði orðið. En sú er ekki reyndin í dag, þannig að þetta er okkar sterkasta verkfæri sem stendur að eiga í þessu samtali. Það er makalaust í ljósi þess að í ríkisstjórninni í dag sitja tólf ráðherrar. Það sitja tólf ráðherrar í þessari ríkisstjórn og gegna ákveðnu hlutverki á þingi og þeir eru tveir mættir. Ætlun okkar hér í dag var að ræða við mennta- og barnamálaráðherra um sóttkví barna, um skólagöngu þeirra og þá staðreynd að ótrúlega mikill fjöldi barna hér á landi er í sóttkví. En við getum ekki átt það samtal vegna þess að hann er ekki mættur.“
„Það er enn þá neyðarástand í samfélaginu“
Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata kom í pontu og var harðorð í garð ráðherranna. „Það mætti halda að það væri ekkert að gerast hérna í samfélaginu. Hæstvirtur fjármálaráðherra er bara í fríi þegar verið að koma með neyðaraðgerðir í þágu atvinnulífsins vegna COVID-aðgerða ríkisstjórnarinnar og vegna sóttvarnaaðgerða. Það eru fréttir af því að börn séu innilokuð, alein í herbergi í sóttkví eða einangrun, en ekki fáum við að spyrja barnamálaráðherra út í það út af því að hann hefur ekki fyrir því að mæta í óundirbúnar fyrirspurnir og hefur ekki verið neitt ofboðslega duglegur að mæta í óundirbúnar fyrirspurnir yfir höfuð,“ sagði hún og vísaði í það að Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra var fjarverandi í vikunni þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru ræddar.
„Svo eru fregnir af vinnumarkaðnum og einstæðum foreldrum sem eru í vondum málum eftir sóttvarnaaðgerðir og COVID-aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Það er ofboðslega mikið að gerast í samfélaginu. Það er enn þá neyðarástand í samfélaginu og ég krefst þess að ráðherrar mæti í óundirbúinn fyrirspurnatíma og sitji fyrir svörum á þessum tímum. Mér finnst óforskammað að hér séu tveir ráðherrar,“ sagði hún.
Spurði hvort fjármála- og efnahagsráðherra væri fluttur til útlanda
Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði stöðuna vera óásættanlega.
„Sú staða að hér í þinginu skuli einungis vera tveir af tólf ráðherrum til svara á þeim tímum sem við lifum nú – og ég þarf ekki að fara yfir það hér í mínúturæðu – er algerlega óásættanleg. Hæstvirtur forseti verður að standa með þinginu og sjá til þess að þetta gerist ekki aftur. Þetta minnir mig á það andrúmsloft sem var hér fyrir hrun þegar ráðherraræðið var algjört. Við erum að sigla inn í sama anda. Það má ekki gerast. Ráðherrar starfa í umboði þingsins og við höfum skyldum að gegna í eftirlitshlutverki með framkvæmdarvaldinu. Og hvar er hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra? Er hann fluttur til útlanda?“ spurði hún.