Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, leiðir lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi til alþingisþingkosninga í haust.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum í dag, en reyndar hafði fyrir allnokkru kvisast út að Eiríkur yrði oddviti flokksins í kjördæminu og höfðu héraðsfréttamiðlar í kjördæminu slegið því föstu að svo yrði, samkvæmt sínum heimildum.
Í öðru sæti listans verður Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi. Viðreisn á engan þingmann í kjördæminu í dag og fékk 495 atkvæði í kosningunum árið 2017, eða 2,1 prósent atkvæða. Þá var Benedikt Jóhannesson oddviti flokksins í kjördæminu.
Eiríkur hefur áratugareynslu af störfum í stjórnsýslu sveitarfélaga í kjördæminu. Hann var ráðinn bæjarstjóri Austur-Héraðs árið 2002 og var síðan ráðinn bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs við sameiningu sveitarfélaga á Héraði. Áður hafði hann starfað í stjórnsýslu á bæði Akureyri og Egilsstöðum.
Árið 2010 var Eiríkur svo ráðinn bæjarstjóri á Akureyri og gegndi hann því starfi til ársins 2018. Haft er eftir honum í fréttatilkynningu frá Viðreisn að mikilvægt sé að hlusta á væntingar og þarfir íbúa í kjördæminu og setja fólkið í fyrsta sæti.
„Það þarf að bæta og efla skilning ríkisins á stöðu fólks í kjördæminu og á landsbyggðunum almennt og tryggja jöfnuð milli landshluta. Þá þarf að skapa jarðveg fyrir ungt fólk til að lifa og starfa í kjördæminu og horfa til framtíðar, meðal annars með stuðningi við nýsköpun og frumkvöðla,“ er haft eftir Eiríki í tilkynningu flokksins.
Þá er loksins komið að því að kynna til leiks forystu Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Hér eru miklir reynsluboltar á ferð og við erum gríðarlega stolt af því að fá þau til liðs við okkur 🥳
Posted by Viðreisn on Monday, April 19, 2021