Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, lét ekki sjá sig þegar sigursælt lið landsins snéri aftur til Pyongyang af Asíuleikunum sem fram fóru í nágrannalandinu Suður-Kóreu. Fulltrúar Norður-Kóreu hafa ekki staðið sig betur á Asíuleikum síðan 1990 og var því talsverður fjöldi sem hyllti íþróttamennina við heimkomuna. En leiðtogan var hvergi að finna.
Jong-un hefur ekki sést opinberlega í meira en mánuð sem hefur ýtt undir getgátur um að hann hrjái alvarleg veikindi. Fyrir rúmri viku síðan sagði Guardian frá því að leiðtoginn hafi ekki mætt á mikilvægan þingfund í norður-kóreska þinginu og velti fyrir sér vísbendingum um hrakandi heilsu hans.
Sögusagnir um að Kim sé ekki hraustur spruttu fyrr á þessu ári þegar myndskeið í ríkissjónvarpi landsins sýndi leiðtogan orðinn mun þyngri og haltra, eitthvað sem var ekki vandamál þegar hann tók við embættinu af föður sínum í desember 2011. Hann er talinn þjást af gigt vegna stórreykinga og dálætis á ostum en fjarvera hans á þingfundinum um daginn varð til þess að yfirvöld í Norður-Kóreu ræddu opinberlega um heilsu leiðtogans. Slíkt er mjög óvanalegt í flokksræðinu á Kóreuskaga.
Leiðtoginn, sem orðinn er 31 árs, var þá sagður þjást af „óþægilegum líkamlegum kvillum“ en hugmyndir um að hann þjáist af þvagsýrugigt voru ekki staðfestar.
Ríkissjónvarpsstöð Norður-Kóreu sýndi heimildamynd um svipað leyti þar sem Kim Jong-un sést heimsækja verksmiðju í höfuðborginni. Þulurinn heyrist þá lýsa „ríkidæmi og velsæld“ sósíalíska kerfisins sem afleiðingu af fórnum leiðtogans sem „heldur áfram að lýsa leiðina fyrir fólkið [...] þrátt fyrir að finna fyrir óþægindum“.
Kim Jong-un 31. ágúst 2014 þegar hann heimsótti verksmiðju ásamt fylgdarteymi sem sést glósa hjá sér spakmæli og brandara leiðtogans.
Ekki á hann minnst í ríkisfréttum
Norður-Kórea annast alla fjölmiðlun í landinu og stjórna þannig umræðunni um öll heimsins mál þar. Auk þess að flytja fréttir á kóresku eru þær birtar á vefnum á spænsku og ensku. Í einni slíkri frétt er sagt frá heimkomu norður-kóreska íþróttafólksins á sunnudag. Þar er því lýst hvernig hetjum þjóðarinnar var fangað innilega á flugvellinum í Pyongyang af helstu ráðamönnum Verkamannaflokksins og hersins.
Eftir að hafa hyllt myndir af Kim Il-sung og Kim Jong-il (afa og föður núverandi leiðtoga) óku íþróttamennirnir svo í opnum vögnum niður aðalstrætið í höfuðborginni þar sem fólk hafði stillt sér upp tíu kílómetra meðfram og veifuðu blómum.
Hvergi er minnst á Kim Jong-un. Síðustu myndirnar af honum eru síðan 31. ágúst, þegar hann heimsótti nýuppgerða verksmiðju.
Lítið vitað um Jong-un
Þrátt fyrir að Kim Jong-un hafi gengið í háskóla í Sviss og sé nú leiðtogi ríkis í Asíu er lítið vitað um hann. Þegar hann tók við af föður sínum Kim Jong-il var til að mynda ekki vitað nákvæmlega hvenær og hvaða ár Jong-un var fæddur. Margir vonuðu því, vegna skorts á upplýsingum þar á, að hann yrði umbótasinni í Norður-Kóreu og myndi tempra harðneskjuna sem stjórnvöld sýna almenningi í landinu.
Vonir um slíkt hafa þó orðið að engu eftir að Jong-un hefur setið í tæp þrjú ár. Hungursneið og fátækt er enn mjög mikil í landinu. Þá hefur samband Norður-Kóreu við nágrannaríki versnað nokkuð en ríkið reyðir sig þó nokkuð á hjálparaðstoð frá öðrum löndum.
Vopnaframleiðsla Norður-Kóreumanna er einn stærsti þyrnirinn í augum þróaðra ríkja í álfunni, og handan Kyrrahafsins, en kjarnorkutilraunum hefur verið áfram haldið í Norður-Kóreu eftir að Jong-un tók við valdataumunum. Jafnframt segjast yfirvöld í Norður-Kóreu vera langt komin með geimferðaáætlun sína en bandaríska leyniþjónustan segir það vera ofsögur. Það sé hins vegar áhyggjuefni að Norður-Kórea skuli halda áfram að rannsaka og prófa sig áfram með stærri eldlflaugar því á endanum muni þeir geta smíðað flaugar sem náð geta til annarra heimsálfa.
Kim Jong-un nýtur án efa ekki jafn mikillar hylli og faðir sinn og afi. Þeir voru báðir lengi sem leiðtogar Norður-Kóreu, Jong-il var leiðtogi í 17 ár en Il-sung í 46 ár. Á myndbandinu hér að neðan má sjá fréttaþul ríkissjónvarpssins minnast Kim Jong-il í lok árs 2011. Leiðtogaástin virðist vera svo mikil að þulurinn brotnar algerlega niður og grætur meðan hún les.
http://www.youtube.com/watch?v=hRkp8d4R-Qs