Ef ég ætti að spá hvenær eitthvað gerist í opinberum samskiptum Íslands og Kína myndi ég hiklaust segja: “Það verður í lok mars - byrjun apríl“. Svo virðist sem þá opnist leynilegar dyr milli landanna og leiðtogar þeirra smjúga fram og til baka með herskara af háttsettum embættismönnum og kauphéðnum í eftirdragi. Árið 2012 bankaði þáverandi forsætisráðherra Kína Wen Jiabao upp hjá okkur á þessum tíma. Árið eftir kíktu svo Jóhanna og Össur í heimsókn hingað austur einnig á þessum tíma til að undirrita fríverslunarsamning.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.
Í fyrra var undantekningin sem sannar regluna og dokaði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra þá við með Kínaferð sína fram í júní -- e.t.v. svo hún rækist ekki á upplestur Sjóns úr Skugga-Baldri í Peking í mars. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að fullyrða að „forspárgildi“ kenningar minnar hafi verið gott í ár því einmitt nú í mars-apríl var að fara frá Peking opinber sendinefnd er gerði víðreist um höfuðborgarsvæðið og skrifaði undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf eins og títt er í velheppnuðum ferðum. En af hverju opnast leynidyrnar á þessum tíma? Varla af því þessi tími sé svo hentugur fyrir okkur. Þvert á móti þá er venjulega allt að verða vitlaust heima á þessum tíma. Það eru að koma páskar og vor og ekki búið að leggja nein mikilvæg mál fyrir Alþingi. Við megum alls ekki við að missa okkar besta fólk úr landi í mars-apríl. Í Kína er þingstörfum hins vegar nýlokið. Leiðtogar landsins eru búnir að láta endurkjósa sig og fá öll sín mál samþykkt. Þetta er því að minnsta kosti heppilegur tími fyrir þá til að sökkva sér sér í hið alþjóðlega samkvæmislíf.
Illugi Gunnarsson, mennta og menningarmálaráðherra Íslands.
Í ár var það Illugi Gunnarsson ráðherra menntamála, íþrótta og knattspyrnu sem kom. Fetaði hann í fótspor leiðtoga annarar stórrar fótboltaþjóðar er var hér fyrir skemmstu, Villhjálms hertoga af Cambridge. Villhjálmur, sem er verndari ensku knattspyrnunnar, mun hafa náð tali af forseta Kína Xi Jinping og er sagt að vel hafi farið á með þeim eftir að viðræðum lauk um verndun fílsins sem hertoginn heldur einnig verndarhendi yfir. Þó að ástand fíla í Kína sé ágætt þá er Afríkufíllinn hins vegar í bráðri útrýmingarhættu vegna þess hve eftirsótt bein hans eru til smíði kínverskra skartgripa. Xi mun hafa lofað að athuga hvað hann gæti gert í þessu og tók Villhjálmur þá upp léttara hjal.
Dásamaði hann dýpkun umbótanna í kínverska boltanum sem Xi hefur boðað og hét stuðningi enska knattspyrnusambandsins og bresku krúnunnar. Þótti strákurinn laginn að koma áhugamálum sínum á framfæri og minnti alls ekki á diplómatískan stíl föður síns. Er ég hafði spurnir af komu Illuga hóf ég strax undirbúning metnaðarfullrar aðgerðar svo vegur hans eystra yrði ekki síðri en Villhjálms. Svo heppilega vildi til að sendiráðið hafði boðað til tónleika á sal þannig að menn gætu sýnt sig og séð aðra. Ætlaði ég að mæta snemma og stilla mér upp í portinu fyrir framan innganginn að sendiráðsbyggingunni -- undir fána Evrópusambandsins (við erum með með ókeypis aðstöðu í sendiráði vina okkar Eista en þeir draga þann fána að húni ásamt sínum eiginn). Ef Illugi heilsaði mér myndi ég dásama veðrið og segja síðan eins og út í bláinn „það er bara alveg hægt að vera á skyrtunni hérna undir þessari fánaborg“.
Meðan ráðherrann væri að velta þessu fyrir sér léti ég vaða: Væri ekki ráð að hann tæki fótboltalandsliðið með sér í næstu Kínaferð. Vellirnir hér væru orðnir mjög grónir í mars-apríl og þetta væri leikur sem við gætum ekki tapað. Litla Ísland myndi standa uppi í hárinu á risanum. Ekkert gæti aukið hróður þjóðar vorrar í austri jafn mikið.
Meðan ráðherrann væri að velta þessu fyrir sér léti ég vaða: Væri ekki ráð að hann tæki fótboltalandsliðið með sér í næstu Kínaferð. Vellirnir hér væru orðnir mjög grónir í mars-apríl og þetta væri leikur sem við gætum ekki tapað. Litla Ísland myndi standa uppi í hárinu á risanum. Ekkert gæti aukið hróður þjóðar vorrar í austri jafn mikið.
En margt fer á annan veg en ætlað er. Ég fann ekki réttu fánana er ég mætti á staðinn og hrökklaðist því beint inn á salinn. Þar voru íslenskir músíkantar að hita upp tregafulla ættjarðarsálma. Þjónn kom aðvífandi og rétti mér hvítvínsglas. Fljótt varð ég meyr eins og lamb. Ráðherra íslensku knattspyrnunnar kom í hús. Hann heilsaði mér kumpánlega. Allt í einu fannst mér orkumálin, sjávarútvegurinn, menntun og rannsóknir miklu mikilvægara en fótbolti. Ég fann mig alls ekki í því að vera að reka einhver persónuleg erindi á þessari hátíðarstundu. Áður en ég vissi af hafði ég misst af tækifærinu. Það verður því líklega ekki landsleikur við Kína á næstunni.