„Fyrir einhverja kann að vera fagnaðarefni að sjá virði eignarinnar sinnar hækka á milli ára en fyrir fólk í minni stöðu, ungt fólk sem er fast á leigumarkaði eða er nýbúið að kaupa sína fyrstu eign, er það kvíðavaldur,“ sagði Lenya Rún Taha Karim varaþingmaður Pírata á Alþingi í vikunni.
Varaþingmaðurinn vísar þarna í nýtt fasteignamat sem birtist í liðinni viku en samkvæmt því verður heildarmat á virði fasteigna á Íslandi 19,9 prósent meira á næsta ári en það var á þessu ári. Það þýðir að heildarvirði allra fasteigna hérlendis verður 12.627 milljarðar króna. Hækkunin nemur um 2.100 þúsund milljónum króna á milli ára og þýðir þetta meðal annars að fasteignaskattar munu hækka.
Hún benti á að með hærra fasteignamati yrði enn erfiðara fyrir ungt fólk að kaupa sér fasteign. „Þegar þú ert að leigja og greiðir kannski helming launa þinna í leigu í hverjum mánuði er ekkert grín að safna fyrir fyrstu útborgun sem verður hærri með hverju árinu. Þetta væri minna vandamál ef hér væri heilbrigður leigumarkaður en stjórnvöld hafa lítinn áhuga á að hjálpa leigjendum út úr þessum vítahring.“
Minni líkur að hægt verði að safna fyrir útborgun
Lenya Rún sagði jafnframt að með hærra fasteignamati hækkuðu einnig fasteignagjöldin og fyrir „þau okkar sem eru á leigumarkaði þýðir það bara eitt: hærri leigu, enda munu leigusalar auðvitað hækka leiguna í samræmi við hærri gjöld“.
„Hærri leiga þýðir hærri útgjöld sem þýðir enn þá minni líkur á að við náum að safna fyrir útborgun. Þeir jafnaldrar mínir sem náðu að kaupa sér sína fyrstu íbúð í faraldrinum eru margir ekkert í betri stöðu. Þau skuldsettu sig upp í topp með hagstæðum lánum en svo hækkuðu stýrivextir og afborganir þeirra sömuleiðis. Nú sitja þau uppi með gríðarlega há lán og afborganir sem þau eiga erfitt með að standa undir, sem er gríðarlega íþyngjandi fyrir fólk í bágri fjárhagsstöðu, ekki bara ungt fólk,“ sagði hún.
Vonast til að Reykjavíkurborg lækki fasteignagjöld
Lenya Rún fagnar því að mörg sveitarfélög hafi þegar tilkynnt að þau muni lækka fasteignagjöld og færa sig þannig nær Reykjavík sem hafi verið með lægstu álagninguna árum saman en jafnframt vonast hún til að Reykjavíkurborg grípi til svipaðra ráðstafana og hin sveitarfélögin.
„Ég vona líka að sú staða sem er komin upp verði stjórnvöldum vakning og þau fari loksins að beita sér af alvöru fyrir betri og heilbrigðari húsnæðismarkaði,“ sagði hún að lokum.