Ekki liggur fyrir samkomulag við íslensku viðskiptabankana um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem á að höfuðstólslækka samkvæmt leiðréttingaáformum ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt heimildum Kjarnans kom þetta fram á fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun. Kjarninn hefur auk þess fengið þetta staðfest innan bankakerfisins.
Samningsviðræður þeirra sem sjá um leiðréttingaráformin við Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka standa þó enn yfir og unnið er að útreikningum með það fyrir augum að lausn náist.
Átti að liggja fyrir um miðjan október
Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri leiðréttingarinnar, mætti á fund efnahags- og viðskiptanefndar og svaraði spurningum nefndarmanna um framkvæmd hennar. Í máli hans kom meðal annars fram að enn liggi ekki fyrir samkomulag við íslensku viðskiptabankanna um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem liggja hjá bönkunum og á að niðurfæra. Slíkt samkomulag er forsenda þess að hægt verði að framkvæma niðurfærsluna.
Tryggvi Þór sagði í samtali við Kjarnann í byrjun október að 95 prósent þeirra sem sóttu um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána muni fá að vita hvort og þá hversu mikið þeir fá um miðjan október. Í dag er 15. október.
Allt að 80 milljarða kostnaður
Leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána snýst um að ríkissjóður greiðir allt að 80 milljarða króna í niðurfærslur á verðtryggðum húsnæðislánum á fjögurra ára tímabili. Til þess að eiga möguleika á leiðréttingu þurfti fólk að sækja um og rann umsóknarfrestur út 1. september síðastliðinn. Alls bárust um 69 þúsund umsóknir áður en fresturinn rann út. Á bakvið þær standa um 105 þúsund manns.