Samkeppniseftirlitið birti þá niðurstöðu frummats síns í febrúar síðastliðnum að til staðar væru vísbendingar um um yfirráð Samherja eða sameiginleg yfirráð Samherja og tengdra félaga yfir Síldarvinnslunni.
Síðan að sú niðurstaða var birt hefur, samkvæmt heimildum Kjarnans, verið kallað eftir gögnum frá stjórnvöldum, Samherja, Síldarvinnslunni og öðrum tengdum aðilum vegna málsins. Sú gagnaöflun hafi gengið vel en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort ráðist verði í formlega rannsókn á málinu.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var þar til fyrir skemmstu annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Síldarvinnslan skráð á markað
Frá því að frummatið var birt í ákvörðun vegna samruna dótturfélags Síldarvinnslunnar og útgerðarfélagsins Bergs hafa þær vendingar átt sér stað að Síldarvinnslan var skráð á markað. Það gerðist í maí síðastliðnum.
Þá seldu stærstu hluthafarnir í Síldarvinnslunni 29,3 prósent hlut fyrir 29,7 milljarða króna. Mest seldu Samherji og Kjálkanes. Hvort félag fyrir sig seldi fyrir 12,2 milljarða króna en Snæfugl seldi einnig fyrir um milljarð króna. Kjálkanes hefur síðan selt enn stærri hlut fyrir um tvo milljarða króna og á nú 17,4 prósent eignarhlut.
Samherji er áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar þrátt fyrir að selja ofangreindan hlut í henni með 32,6 prósent eignarhlut. Þorsteinn Már er enn stjórnarformaður Síldarvinnslunnar. Snæfugl á svo 4,3 prósent hlut þannig að þessir þrjú félög, sem Samkeppniseftirlitið taldi vera með yfirráð í Síldarvinnslunni, eiga enn 54,37 prósent í Síldarvinnslunni. Aðrir stórið eigendur eru Samvinnufélag útgerðarmanna á Neskaupsstað (10,97 prósent) og Gildi lífeyrissjóður (10,2 pósent).
Hagnaðist um 5,8 milljarða á fyrri hluta árs
Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar á fyrri hluta ársins 2021 voru um 5,8 milljarðar króna. Hagnaður félagsins var 3,9 milljarðar króna og skýrist að stórum hluta af því að félag utan um stóran hlut í tryggingafélaginu Sjóvá var fluttur til hluthafa hennar með arðgreiðslu í aðdraganda skráningar Síldarvinnslunnar á markað fyrr á árinu. Bókfært verð félagsins, SVN eignafélags, var 3,7 milljarðar króna en verðmæti hans á arðgreiðsludegi var 2,9 milljörðum krónum meira. Sá munur bókfærðist því sem hagnaður.
Markaðsvirðið rauk upp um tugi milljarða
Eignir Síldarvinnslunnar eru metnar á samtals 74,4 milljarðar króna, skuldir 26,2 milljarða króna og eigið fé samstæðunnar var 48,2 milljarðar króna.
Verðmætasta bókfærða eignin sem Síldarvinnslan heldur á eru aflaheimildir. Þær eru bókfærðar á 34 milljarða króna. Ef miðað er við markaðsvirði kvóta, út frá síðustu gerðu viðskiptum með aflaheimildir sem dótturfélag Síldarvinnslunnar gerði, þá er ætti markaðsverð allra aflaheimilda sem úthlutað hefur verið að vera 1.195 milljarðar króna. Miðað við Síldarvinnslan og dótturfélög hennar haldi á 7,7 prósent af úthlutuðum kvóta, samkvæmt síðustu birtu upplýsingum Fiskistofu, þá má ætla að markaðsvirði hans sé 92 milljarðar króna. Eða 58 milljörðum krónum yfir bókfærðu virði.
Bréf í Síldarvinnslunni hafa hækkað gríðarlega í virði síðastliðnar vikur. Frá 23. september hefur heildarmarkaðsvirði félagsins aukist um 30 prósent, eða 35,4 milljarða króna. Ástæðan er fyrst og síðast talin vera stóraukinn loðnukvóti.