Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði Viðskiptaþing í dag í fyrsta sinn í tvö ár. Þar sagði hún atvinnulíf og stjórnvöld bera mikla ábyrgð á baráttunni gegn verðbólgunni og að ekki væri eingöngu hægt að vísa ábyrgð á launafólk í komandi kjarasamningum ef það fengi að horfa upp á himinháar launagreiðslur til toppanna eða himinháar arðgreiðslur til eigenda fyrirtækja.
Í ávarpi sínu fór Katrín yfir þann lærdóm sem hægt er að draga af kórónuveirufaraldrinum, meðal annars að samheldni samfélagsins hafi reynst okkar mestu verðmæti. Við nýjar áskoranir þyrftum við að reiða okkur á þessa sömu samheldni.
Í baráttunni gegn verðbólgunni verði allir að leggja sitt af mörkunum, og atvinnulífið geti stutt við þetta verkefni með sinni framgöngu. Stjórnvöld muni svo sannarlega leggja sitt af mörkum með því að fylgja eftir þeirri langtímasýn á húsnæðismarkaðinn sem kynnt var í gær.
Íslenskukennslu á vinnutíma
Þá tók Katrín sérstaklega upp málefni innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði og sagði innflytjendur hátt í 20 prósent íbúa á Íslandi og atvinnuþátttaka þeirra væri með því mesta sem gerist. Það væri skylda okkar að virkja þau til þátttöku í samfélaginu og ein mikilvægasta leiðin til þess er að tryggja þeim íslenskukennslu, til dæmis á vinnutíma.
Að lokum ræddi hún loftslagsvána, sem hvergi hafi farið þrátt fyrir heimsfaraldur og stríð í álfunni. Stjórnvöld hafi í upphafi kjörtímabilsins kynnt enn metnaðarfyllri markmið en áður. Til þess að þau náist þurfi öll að leggja sitt af mörkum og þátttaka atvinnulífsins í þessu verkefni geti skipt sköpum fyrir framtíðina.