Fjármála- og efnahagsráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um hvert endanlegt tjón Landsbankans á SpKef sparisjóði, áður Sparisjóðnum í Keflavík, var. Landsbankinn, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, hafnaði beiðni ráðuneytisins um að veita þær upplýsingar og vísaði í að um þær ríkti trúnaður.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um yfirtökuna á SpKef, sem birt var á föstudag. Skýrslan var unnin vegna beiðni Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins, þar um. Í skýrslunni er bent á að ríkissjóður sé „langstærsti eigandi Landsbankans og því hefur tap eða hagnaður bankans af yfirtökunni með beinum hætti áhrif á virði eignarhlutar ríkisins í bankanum.“
Aðrar upplýsingar sem koma fram í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra byggja nær einvörðungu á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir og falls sparisjóðanna sem skilað var í apríl 2014, þar sem mikið var fjallað um Sparisjóðinn í Keflavík.
Afkoman tengd gengi hlutabréfa
Sparisjóðurinn í Keflavík, eða SpKef, var samkvæmt þeirri skýrslu einna verst rekinn allra sparisjóðanna. Vaxtamunur hans var til að mynda oftast lægri en hjá öllum hinum sjóðunum, útlán hans virðast hafa verið illa undirbyggð, afkoma sjóðsins var nánast einvörðungu bundin við gengi hlutabréfa sem hann átti og embætti sérstaks saksóknara, sem nú hefur runnið inn í embætti héraðsaksóknara, rannsakaði um árabil nokkur mál tengd honum. Eitt þeirra mála rataði fyrir dómstóla og í desember 2017 var Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir umboðssvik.
Auk þess yfirtók sjóðurinn nokkra minni sjóði víða um land sem leiddi til þess að eignasafnið stækkaði.
Starfsemin var að mestu fjármögnuð með innlánum.
26 milljarða meðgjöf
Útlánin sem Sparisjóðurinn í Keflavík veitti voru mörg hver léleg. Lán til venslaðra aðila voru umtalsverð, 90 prósent útlána sem voru með veði í hlutabréfum voru tryggð með veði í óskráðum bréfum, verðmæti trygginga var í mörgum tilvikum langt undir lánsfjárhæði og ofmetið.
Sparisjóðurinn fór í þrot í apríl 2010 og í kjölfarið var ákveðið að stofnsetja nýjan sjóð á grunni þess gamla, SpKef. Sá lifði þó einungis í tíu mánuði áður en honum var rennt inn í Landsbankann gegn því að íslenska ríkið borgaði allt að 26 milljarða króna með honum.
Ástæða þess að svo háa fjárhæð þurfti til var sú að óháðir sérfræðingar töldu að enn minna myndi innheimtast af lélegum útlánum sparisjóðsins en áður var áætlað og vegna þess að innlánin voru orðin jafn stór hluti af skuldum hans þegar sjóðurinn loksins fór í þrot eins og raun ber vitni.
Fjaðrafok vegna skýrslubirtingar
Í ágúst 2013, áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar var birt, fjallaði Kjarninn ítarlega um Sparisjóðinn í Keflavík. Sú umfjöllun byggði á svartri skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins PwC um sjóðinn, sem unnin var að beiðni Fjármálaeftirlitsins.
Samhliða umfjölluninni birti Kjarninn skýrslu PwC um sparisjóðinn í heild sinni, en hún er hátt í fimm hundruð blaðsíður að lengd. Í skýrslunni var að finna fjárhagsupplýsingar um helstu lántakendur og viðskiptavini sjóðsins sem og upplýsingar um útlánastöðu starfsmanna hans.
Eftir birtingu leyniskýrslunnar fór Fjármálaeftirlitið fram á að hún yrði fjarlægð af vefsíðu Kjarnans, vegna fjárhagsupplýsinga sem þar væri að finna um nafngreinda viðskiptavini og starfsmenn sjóðsins. Kjarninn hafnaði beiðni Fjármálaeftirlitsins um að fjarlægja skýrsluna, þar sem hún ætti erindi við almenning enda hafi gjaldþrot Sparisjóðsins í Keflavík kostað almenning tugi milljarða króna.
Sjö fyrrverandi starfsmenn Sparisjóðsins í Keflavík sendu Persónuvernd formlega kvörtun vegna umfjöllunar Kjarnans um sparisjóðinn þann 22. ágúst 2013. Á meðal starfsmannanna eru fyrrverandi innri endurskoðandi og forstöðumaður áhættustýringar og útlánahættu Sparisjóðsins í Keflavík.
Persónuvernd vísaði kvörtununum frá.