„Hinn óþægilegi sannleikur með þennan gagnaleka er að það er ekki hægt að fagna birtingu þessara skjala því þau hafa ekki verið birt. Það eina sem hefur birst eru fréttir byggðar á lekanum.“
Þetta ritar Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks á Facebook en tilefnið er stór gagnaleki til Alþjóðasamtaka rannsóknarblaðamanna (ICIJ) sem greint var frá í fjölmiðlum víða um heim um helgina. Um er að ræða um tólf milljón skjöl en samkvæmt ICIJ opinbera þau „innri starfsemi skuggahagkerfis sem gagnast þeim auðugu og vel tengdu á kostnað allra annarra“. Verkefnið er kallað Pandóruskjölin en yfir 600 blaðamenn tóku þátt í að greina og vinna gögnin í samstarfi við ICIJ. Enginn íslenskur fjölmiðill hefur enn birt umfjöllun upp úr skjölunum er varða Íslendinga.
Pandóruskjölin eru Panamaskjölin „á sterum“
Í skjölunum eru opinberuð vafasöm viðskipti um 35 fyrrum eða núverandi þjóðarleiðtoga, þar á meðal við aflandsfélög í svokölluðum skattaskjólum. Einnig eru í skjölunum gögn um viðskipti um 300 embættismanna, að því er fram kemur í frétt RÚV um málið. Skjölunum var lekið frá 14 fjármálafyrirtækjum sem staðsett eru víða um heim, þar á meðal í Panama, Belís, Kýpur, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Sviss. Gerard Ryle, framkvæmdastjóri ICIJ, segir að Pandóruskjölin séu Panamaskjölin „á sterum“.
Mikið var fjallað um Panamaskjölin í íslenskum fjölmiðlum árið 2016 en upplýsingar í gögnunum teygðu anga sína víða. Þar mátti meðal annars finna vísbendingar um hvar efnamikið fólk hefði komið peningum sínum fyrir í þekktum skattaskjólum víðsvegar um heim og hvernig það hefði falið margvíslega lögfræðilega gjörninga.
Fyrstu fréttirnar úr gögnunum voru fluttar sunnudaginn 3. apríl árið 2016 og samhliða því var sýndur Kastljósþáttur á RÚV þar sem sagt var frá tengslum íslenskra stjórnmálaleiðtoga við aflandsfélög. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, var gerður að aðalatriði í umfjöllun fjölmiðla um allan heim um Panamaskjölin. Hann sagði af sér í kjölfarið.
Finnst rétt að gefa almenningi aðgang að gagnagrunninum
Kristinn segir í stöðuuppfærslu sinni á Facebook, sem hann birti í gær, að sem talsmaður annars módels sem felur í sér að veita almenningi aðgang að slíkum gagnagrunnum geti hann ekki annað en skorað á viðkomandi að birta allt sem hægt sé að birta. Wikileaks hefur birt óunnin gögn á síðu sinni, ólíkt aðferð ICIJ þar sem leitast er við að vinna úr gögnunum áður en þau eru birt.
„Ég hef skilning á því að það kunni að vera ástæður til að gera það í áföngum og yfir tíma en það er rétt að gefa almenningi kost á að leita í svona gagnagrunni. Það er jákvætt að fá þessar upplýsingar á yfirborðið og margar áhugaverðar fréttir sem hafa verið skrifaðar. Það er einnig jákvætt að skapa stóran samstarfsvettvang fjölmiðla og hundruð blaðamanna um allan heim en WikiLeaks reið á vaðið með slíkt model fyrir áratug,“ skrifar Kristinn.
Hinn óþægilegi sannleikur með þennan gagnaleka er að það er ekki hægt að fagna birtingu þessara skjala því þau hafa ekki...
Posted by Kristinn Hrafnsson on Sunday, October 3, 2021